Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 12:40:15 (421)

1996-10-17 12:40:15# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[12:40]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég tek undir margt sem kom fram í máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur, og sérstaklega það sjónarmið sem hún vakti athygli á í upphafi máls síns að margir liðir sem hér er að finna voru fyrirséðir þegar fjárlög voru samþykkt í lok síðasta árs fyrir yfirstandandi ár. Hún nefndi sérstaklega í því efni framlag til sjúkrahúsanna í Reykjavík. Það eru hins vegar tvö eða þrjú atriði sem ég vildi sérstaklega vekja máls á og tel brýnt að fjmrh. geri nánar grein fyrir. Annað atriðið varðar neyðarsímsvörun. Þar segir að leitað sé eftir 14 millj. kr. framlagi til að mæta fjárvöntun vegna samnings um starfrækslu neyðarsímsvörunar og svo ég vitni áfram hér í greinargerð, með leyfi forseta:

,,Eftir að tillögur um fjárveitingar til verkefnisins höfðu verið settar fram í fjárlagafrumvarpi ársins 1996 breyttust forsendur samningsins um 15 millj. kr. árlegt rekstrarframlag.`` Ég tel mikilvægt að fá upplýsingar um hvað hér er á ferðinni. En síðan segir áfram, með leyfi forseta: ,,Í samningnum sem dómsmálaráðuneytið gerði við Neyðarlínuna hf. síðla árs 1995 bættist við 7 millj. kr. stofnkostnaður og aðrar 7 millj. kr. til kynningarmála árin 1995 og 1996.``

Í frv. til fjárlaga ársins 1997 hefur verið gert ráð fyrir sambærilegri hækkun framlags til þessarar starfsemi, sambærilegri hækkun. Nú er venjan að stofna einu sinni til stofnkostnaðar og spurningin er þessi til hæstv. fjmrh. hvort um verði að ræða síendurtekinn stofnkostnað því það má skilja af því orðalagi sem hér er í þessari greinargerð. Er verið að ræða um síendurtekinn stofnkostnað? Þetta er starfsemi og fjármögnun sem hefur sætt mikilli gagnrýni og er mjög mikilvægt að gerð verði mjög ítarleg grein fyrir því hvað er á ferðinni.

Af öðrum liðum sem koma fram í frv. mætti víða bera niður. En ég spyr sérstaklega um lið undir forsrn. þar sem leitað er eftir 9 millj. kr. viðbótarframlagi vegna aukinnar áherslu á útboðs- og einkavæðingarverkefni á þessu ári. Hvaða nauðsyn krefur til að farið verði fram í frv. til fjáraukalaga um þetta brýna hagsmunamál? Við skulum ekki gleyma því að í þingsal hafa nýlega verið rædd verkefni sem maður hefði talið brýnni, t.d. að koma í veg fyrir það að fólk í Arnarholti, geðsjúkt fólk, sé svipt heimili sínu. Þar hefur skort peninga svo eitt mjög alvarlegt dæmi sé tekið. Þegar um er að ræða viðbótarframlag vegna aukinnar áherslu á útboðs- og einkavæðingarverkefni á þessu ári skortir ekki peningana, þá skortir ekki framlagið sem er samkvæmt skilgreiningum ætlað til að standa straum af úttektum verðbréfafyrirtækja og annarra aðila. (Gripið fram í: Hvaða verðbréfafyrirtækja?) Ég vek athygli á þessu, ekki einvörðungu vegna þess að um mikla peninga er að ræða. Ég er að vekja athygli á pólitískri forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, þ.e. að ekki skortir peninga þegar um er að ræða aukna áherslu á útboðs- og einkavæðingarverkefni. Peninga til verðbréfafyrirtækja, þá skortir ekki fjármagnið eða þegar þarf að bæta peningum í stofnkostnað sem virðist vera síendurtekinn stofnkostnaður Neyðarlínunnar hf. sem ríkisstjórnin gerði samning við um Securitas og önnur fyrirtæki sem er verið að hleypa hér inn í öryggisþjónustu landsmanna og hefur mætt mikilli gagnrýni í þingsal og á eftir að fá mikla umfjöllun áður en upp verður staðið.

Hæstv. forseti. Ég tel að mjög mikilvægt sé að fá upplýsingar frá fjmrh. á þessu stigi um þessa liði sérstaklega. Síðar eigum við að sjálfsögðu eftir að ræða nánar um milljónaupphæðirnar sem á að verja til að fjármagna ævikvöld bankastjóra Íslands.