Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 12:45:40 (422)

1996-10-17 12:45:40# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[12:45]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður get ég ekki nákvæmlega hér og nú sagt frá því hvernig kostnaðurinn skiptist vegna neyðarsímsvörunar. Ég held að það sé eðlilegast að ég kalli eftir samningnum og sundurliðun á öllum kostnaði þannig að hann geti gengið til nefndar og ég mun sjá til þess að hv. þm. fái það skjal líka þannig að það sé hægt að sjá það enda á málið eftir að koma hér fyrir í tveimur umræðum til viðbótar.

Varðandi hinn þáttinn sem hv. þm. minntist á, útboð og einkavæðingu, þá eru þetta fjármunir sem ekki hafði verið gert ráð fyrir sem fara til margvíslegrar starfsemi og snertir einkavæðinguna. Það er auðvitað þannig að nefndin stækkaði nokkuð. (ÖJ: Af hverju stækkaði hún?) Hún stækkaði um einn mann. Það var vegna þess að ákveðið var að taka fulltrúa nýs ráðuneytis inn. Þetta höfðu verið þrjú ráðuneyti áður. (ÖJ: Hver ákvað það?) Það er ákveðið af ríkisstjórninni, sem fer með framkvæmdarvaldið, og samþykkt í henni og þar af leiðandi lagt fram í frv. ríkisstjórnarinnar eins og í þessu frv. (ÖJ: Það var ekki borið undir fjárln.?) Það var ekki gert ráð fyrir þeirri breytingu í forsendum fjárlaga, það er rétt. Í öðru lagi hefur verið unnið að reglum sem kallað var eftir. Ríkisendurskoðun kallaði m.a. eftir reglum sem ættu að gilda um einkavæðingu og útboð. Það kostaði auðvitað fjármuni. Loks eru úttektir á vegum verðbréfafyrirtækja. Ég get því miður ekki svarað því nákvæmlega hvaða fyrirtæki það eru en meira að segja slíkar úttektir eru boðnar út. Þá er venjulega verið að kanna undirbúning og hvernig eigi að fara með einkavæðingu eða hlutafjárvæðingu viðkomandi opinberra fyrirtækja sem á hugsanlega að selja. En verðbréfafyrirtæki fá slík verkefni eftir útboð.