Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 14:14:48 (428)

1996-10-17 14:14:48# 121. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (samtímagreiðslur o.fl.) frv., Flm. MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[14:14]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt. Alþfl. fór ekkert á bak við námsmenn. Það lá alveg fyrir hvernig hann greiddi atkvæði og hver afstaða hans var í umræðunni. Það liggur líka fyrir í þingskjölum. Þær breytingar sem gerðar voru á þeim tíma vegna þess að menn töldu að fjárhagsstaða sjóðsins væri slök voru allar gerðar í þá veru að það bitnaði af fullri hörku á námsmönnum. Það var ekki um það að ræða að mæta því þá með auknum framlögum eða taka lengri tíma til þess að gera þær breytingar sem til þurfti og auka framlög til menntunar í landinu heldur bitnuðu allar breytingarnar fyrst og fremst af fullri hörku á námsmönnum. Það kom fram í umræðunni. Það var farið yfir það aftur og aftur og aftur í umræðu sem tók 42 klukkutíma.