Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 14:15:36 (429)

1996-10-17 14:15:36# 121. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (samtímagreiðslur o.fl.) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[14:15]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þm. þurfum ekkert að deila um þetta mál. Ég hef komið þessari leiðréttingu á framfæri. En það er ástæða til þess að árétta það að því er þennan sjóð varðar að það væri auðvitað mjög æskilegt að um hann væri hægt að skapa frið, þannig að það væri festa um þær reglur sem giltu. Til þess er kannski betri aðstaða nú heldur en verið hefur um langt skeið.

Ég vil árétta það að þegar ég hafði áhrif á það sem fjmrh. á sínum tíma, þá sýndi ég það í verki hver skilningur minn á þessum sjóði var með því að tvöfalda ríkisframlagið til sjóðsins og draga um leið stórlega úr þeim hluta sem var lánafjármagnaður. Ég er sannfærður um það að ef þeirri línu hefði verið fylgt áfram, þá væri staða sjóðsins mun betri og það er kjarni málsins því að það stoðar lítt að tala um fjárfestingu í menntun og væntanlegan hagvöxt á því byggðan og jafnrétti til náms ef sjóðurinn byggir ekki á traustum fjárhagslegum grundvelli. Um það ættu allir að geta sameinast. Sjóð, sem á að vera hvort tveggja í senn fjárfestingarsjóður í menntun og sjóður til þess að tryggja jafnrétti til náms, er ekki hægt að fjármagna til frambúðar með dýrum skammtímalánum. Þá verða stjórnmálamenn að setja peningana þar sem munnurinn er, svo að ég noti annað slæmt orðatiltæki á ensku, nefnilega með því einfaldlega að hækka þau framlög sem sjóðurinn þarf á að halda til þess að standa við skuldbindingar sínar.