Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 14:18:13 (431)

1996-10-17 14:18:13# 121. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (samtímagreiðslur o.fl.) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[14:18]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Af því að hv. þm. óskaði eftir því að ég yrði viðstaddur þessa umræðu, þá er það auðvitað sjálfsagt, en ég vil byrja á því að þakka hv. þm. fyrir að rifja upp kafla úr ágætum ræðum mínum sem ég hélt við lokaafgreiðslu laganna um Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég er sammála hv. þm. um það að menntunin og þekkingin leggur grundvöllinn að atvinnusköpun til framtíðar og það er rétt hjá hv. þm. að eitt af mínum fyrstu verkum var, og æxlaðist þannig þegar ég tók við sem ráðherra, að fara einmitt á fund hjá OECD til þess að fjalla um atvinnuskapandi aðgerðir, en mér fannst hins vegar á ræðu hv. þm. eins og hún gerði sér ekki grein fyrir því hvað væri að gerast í þjóðfélaginu og efnahags- og atvinnulífinu um þessar mundir.

Hagvöxtur er mestur á Íslandi, eða 5,5% á þessu ári, miðað við allar OECD-þjóðirnar, þannig að við erum ekki að dragast aftur úr þar. Við erum í fremstu röð. Fjölgun starfa árið 1996 út af auknum hagvexti verða 3.000 ný störf á vinnumarkaði. (SvG: Er það Framsfl. að þakka?) Ja, nú er það, hv. þm. Svavar Gestsson. Spurningin er hvort þetta er Framsfl. að þakka. Ég var að benda hv. þm. Margréti Frímannsdóttur á það að þetta er að gerast af því að hún var að vitna til ferðar minnar á fund hjá OECD. Ég held að þetta hafi ekki, hv. þm., gerst vegna þess að ég fór á þennan fund hjá OECD. Það er ég nokkurn veginn viss um. En ég er nokkurn veginn viss um að að stórum hluta er þetta Framsfl. að þakka. Fyrir utan það að Framsfl. lofaði, og það er ágætt að rifja það upp við hv. þm. Svavar Gestsson, að skapa 12 þúsund ný störf til aldamóta og ég hef áður sagt: Þau verða ekki 12 þúsund, þau verða sennilega 15 þúsund. (SvG: Er þá nóg komið eða hvað?) Nei, nei, það er ekki nóg komið. Við nefnilega erum þannig, hv. þm., við viljum alltaf gera betur. Okkur finnst aldrei vera nóg. Við viljum gera vel og viljum gera betur. Það er öðruvísi farið heldur en Alþb. fyrir utan það að fjárfesting hér er stórlega að aukast líka.

Nú mun fjárfestingin á þessu ári fara úr 15% í 19% og erlend fjárfesting mun tífaldast á þessu ári þannig að þetta er árangurinn af þeirri stjórnarstefnu sem Framsfl. og Sjálfstfl. reka. En ég segi þetta að lokum: Í góðri samvinnu og samstarfi þessara stjórnarflokka, Framsfl. og Sjálfstfl., er unnið að endurskoðun laganna um Lánasjóð ísl. námsmanna og það er aðalatriðið. (SvG: Hvenær kemur það?)