Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 14:22:22 (433)

1996-10-17 14:22:22# 121. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (samtímagreiðslur o.fl.) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[14:22]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég átti nú hálferfitt með að átta mig á þessari ræðu hv. þm. Tíu milljarða tekjuaukning ríkisins er auðvitað til komin út af auknum hagvexti. Það er ekki tekjuaukinn sem hefur skapað hagvöxtinn eða hagvöxturinn sem hefur skapað tekjuaukann. Skuldir heimilanna hafa ekki skapað hagvöxtinn, því miður, þannig að þarna er einhver hugtakaruglingur hjá hv. þm.

Staðreyndin er hins vegar sú að það er fjárfestingin sem leggur grundvöllinn að hagvextinum í framtíðinni og hún hefur aukist í tíð þessarar ríkisstjórnar úr 15% í 19%. Erlenda fjárfestingin tífaldaðist við samninginn um stækkun álversins í Straumsvík. Þannig er þessi ríkisstjórn að leggja grunninn að öflugu atvinnulífi til framtíðar. Þar skiptir menntunin líka mjög miklu máli. Að því erum við líka að vinna, hv. þm.