Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 14:24:39 (435)

1996-10-17 14:24:39# 121. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (samtímagreiðslur o.fl.) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[14:24]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það var athyglisvert að hlýða áðan á upplestur frsm. fyrir þessu frv. á gífuryrðum þeirra framsóknarmanna fyrir kosningar og það var þó eiginlega enn meira upplýsandi að fylgjast með því hvernig þessi gífuryrði hafa breyst í barnaskap. Vegna þess að ég hygg að það sé leitun á öðrum eins barnaskap og þeim sem ráðherrann sýndi með því að koma hér í ræðustól og stæra sig nánast af hagvexti heimsins og þeim breytingum í efnahagsmálum sem hafa verið að eiga sér stað hér á undanförnum árum.

En það segir manni kannski ákveðna sögu og hversu langt menn vilja ganga í flóttanum frá þeim veruleika sem þeir standa frammi fyrir. En við erum hér til þess að ræða um það frv. sem liggur fyrir um breytingar á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Auðvitað horfa menn til þess til hvers þau lög hafa verið sett, en það var til þess að menn hafi tækifæri til náms án tillits til efnahags. Og við hljótum á hverjum tíma að spyrja, ef við göngum út frá þeirri staðreynd sem stendur í 1. gr. laganna: Hvernig hefur þá til tekist? Hafa þau lög sem við höfum búið við undanfarin ár megnað að aðstoða alla þá til náms eða veita þeim tækifæri sem það hafa viljað án tillits til efnahags? Nei, því miður er niðurstaðan ekki sú og þess vegna hafa menn verið að bera fram tillögu til breytinga á lögunum. Ég er sammála hv. flm. um það að þetta frv. ætti að renna í gegn viðstöðulítið einfaldlega vegna þess að það sem í því er fram sett er fram sett af mikilli hógværð. Í þessu frv. eru engin yfirboð og þess vegna ættu allir, ekki bara stjórnarandstaðan og framsóknarmenn heldur sjálfstæðismenn líka að geta samþykkt þetta frv. sem breytingu á lögunum til þess að gera þau ögn betri á meðan verið er að ganga frá þeirri endurskoðun sem nú er í gangi.

Þegar við lítum til þeirra laga sem eru í gildi og til þess tilgangs sem settur var fram þegar farið var að breyta áður gildandi lögum, þá liggur það fyrir að eftirágreiðslurnar áttu að koma í veg fyrir svokallaða ofgreiðslu lána, þ.e. að þau lán sem væru greidd til námsmanna væru of há eða of mikil vegna þess að einhverra hluta vegna höfðu ekki komið réttar upplýsingar um tekjur eða námsframvindu eða námsmaður hafði ekki staðist tilætlaðar námskröfur. En það hefur komið í ljós að eftirágreiðslurnar höfðu lítil áhrif á þetta atriði. Þetta atriði breyttist fyrst og fremst vegna þess að það voru settar nýjar reglur sem hefði allt eins verið hægt að setja í eldra kerfi og verður sjálfsagt viðhaldið þó svo nýju kerfi með minni eftirágreiðslum verði komið á.

En því var líka haldið fram og einhverjir bundu við það vonir, eins og hér hefur komið fram, að breytingar á lögunum mundu hraða námsframvindu og bæta námsárangur. En fyrir hvorugu þessu hefur verið hægt að færa nokkur rök. Það sem menn hafa haft upp úr þessum breytingum er sem sé ekki það sem óskað var eftir. Og af því að menn báru umhyggju fyrir sjóðnum, umhyggja manna beindist ekki hvað síst að heilsufari hans á þessum tíma, þá er það svo að það vaxtahagræði sem kynni að hafa orðið af því fyrir sjóðinn að greiða lánin út eitthvað seinna en ella er ekki heldur til staðar vegna þess að sjóðurinn hefur greitt námsmönnum vaxtabætur í formi viðbótarlána. Tilkoma eftirágreiðslnanna hafði það fyrst og fremst í för með sér að unnt var að flytja 800 millj. kr. af fjárlagaárinu 1992 yfir á fjárlagaárið 1993 og ef eftirágreiðslur væru afnumdar í einu vetfangi, þá þýddi sú breyting sams konar tilfærslu milli fjárlagaára þannig að það er rétt að drífa nú í því að nýta góðærið til þess að leiðrétta til baka.

Það var annað sem breyttist þegar lögunum var breytt 1992 og menn hafa líka rekið sig á að stenst ekki miðað við það sem ætlað var. Endurgreiðslureglurnar, sem voru stórhertar frá því að vera 3,75% af brúttótekjum upp í að vera 5% fyrstu fjögur árin eins og er nú og 7% eftir það, hafa reynst mjög íþyngjandi og e.t.v. mun meira íþyngjandi en reiknað hafði verið með því eins og kom fram hjá hv. frsm., þá má ætla að 7% endurgreiðsla þýði í raun 10% af ráðstöfunartekjum meðalmannsins. Þegar svo er komið, þá er hlutfallið orðið það hátt að þeir sem lenda í þeim skafli komast ekki í húsaskjól, a.m.k. ekki sitt eigið og það hefur varla verið ætlun Sjálfstfl. með þessum breytingum að afnema séreignakerfið sem hefur verið eitt af flöggum þess flokks í gegnum tíðina.

Þetta er auðvitað atriði sem verður að leiðrétta og er tekið á í því frv. sem hér liggur fyrir og, eins og ég sagði áðan, er þess vegna lafauðvelt að samþykkja og ætti að geta runnið hér í gegn fyrirstöðulítið. Og reynslan af þessari löggjöf, sem við væntanlega kveðjum fljótlega, ætti að kenna okkur að það verður að taka tillit til þess í ríkara mæli en gert var að líf þessa unga fólks sem nýtur námslána og reyndar fólks á öllum aldri heldur áfram eftir að skóla lýkur og það verður að hafa reglurnar þannig að þetta fólk geti eignast fjölskyldu og húsnæði rétt eins og aðrir þjóðfélagsþegnar.

Það má horfa til þess þegar menn fara að endurskoða lögin um lánasjóðinn að endurgreiðslur miðist í ríkari mæli við tekjur heldur en nú er. Það má líka horfa til þess að endurgreiðslur geti verið breytilegar eftir starfsaldri, þ.e. þær séu minnstar til að byrja með og aukist síðan. Og það eru fleiri atriði sem væri æskilegt að taka inn í þá heildarskoðun sem mér skilst að nú fari fram á lögunum og sem væntanlega tekur við þegar sú löggjöf sem hefur verið lagfærð með þessu frv. hefur gegnt sínu hlutverki, að þá þyrfti líka að skoða það ákvæði sem er um ábyrgðarmenn námsmanna. Nú er það svo að ábyrgðir eða tryggingar fyrir lánum eru taldar sjálfsagðar, það hefur almennt verið talið svo og ég held við séum öll sammála um það. En eðli námslána er annað, eðli námslána er ekki það sama og eðli lána sem menn taka til annarrar starfsemi. Námlán eru form á námsaðstoð sem stjórnvöld hafa ákveðið hverju sinni og ef menn horfa til núgildandi laga hlýtur það að stangast á við markmið laganna að einstaklingi sé veitt tækifæri til náms ,,án tillits til efnahags`` að fái hann ekki ábyrgðarmann fær hann þar af leiðandi ekki námslán. Atriðin varðandi ábyrgðarmennina verður því að endurskoða.

[14:30]

Það er líka ljóst að stór hluti námslána verður aldrei endurgreiddur og sú kynslóð sem er nú fjölmennust á Alþingi naut t.d. þess háttar lánskjara að menn fundu lítið eða ekkert fyrir endurgreiðslu þeirra og greiddu í rauninni langt frá raunvirði til baka. Menn vissu tæpast af því að þeir voru að greiða lán til baka. Þá voru lánin að stærstum hluta til gjafir eða styrkir. Þannig hefur það verið að hluta til í öðrum kerfum sem reynd hafa verið vegna þess að lögum um lánasjóðinn og námsaðstoð hefur verið breytt reglulega. Það hefur verið þannig að einhver hluti lánanna kemur ekki til endurgreiðslu. Það er því ljóst að námslán eru og hafa verið að stórum hluta til styrkur. Nú er það út af fyrir sig bæði gott og eðlilegt að kerfið sé að hluta til styrkur og að hluta til lán og með því má kannski segja að hið opinbera viðurkenni þá skyldu sína að fjárfesta í menntun en mér finnst líka ástæða til þess að íhuga hvort ekki á þá formlega að taka upp slíkt kerfi, blöndu af styrkjum og lánum þannig að það sé þá jafnræði á meðal þeirra sem njóta. Í dag er það tilviljanakennt hverjir það eru sem fá stærri hluta styrkja og svo hverjir það eru aftur sem geta endurgreitt að stærri hluta það lán sem þeir fá. Og e.t.v. er það mun tilviljunarkenndara en við vildum sjá. Það er því spurning hvort menn ættu ekki að taka meðvitað á þessu og haga þá styrkjum sem námsaðstoð í þeim mæli og með þeim hætti að menn geti verið nokkurn veginn sammála um réttlætið í því. Það er að minnsta kosti ljóst að nauðsynlegt er að vanda mjög til nýrrar lagasetningar þannig að um hana geti orðið sátt vegna þess eins og hefur verið rækilega dregið fram nú þegar í umræðunni er um svo stóran hluta lífskjara stórs hóps að ræða að menn verða að ná saman um kerfi sem hægt er að hafa nokkurn frið um. Við erum að tala um aðstæður sem fólki eru skapaðar til þess að sjá sér og sínum farborða og það þarf að gera það með öðrum hætti en þeim að stanslaus styrjöld sé í gangi. Menn hafa auðvitað miklar væntingar gagnvart þeirri endurskoðun sem fer fram á lögunum og nú virðist sjá fyrir endann á vegna þess að það virðist vera fyrirætlan hæstv. menntmrh. að leggja fram frv. til laga um sjóðinn á yfirstandandi þingi. Þess vegna væri við hæfi að hann svaraði því í umræðunni hvernig sú vinna gengur, hvaða atriði það eru sem menn hafa verið að takast á við í þeirri endurskoðun og hvenær þess er að vænta að það frv. birtist okkur hér á hv. Alþingi.