Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 14:42:47 (437)

1996-10-17 14:42:47# 121. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (samtímagreiðslur o.fl.) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[14:42]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Eins og margoft hefur komið fram í umræðunni ætti þetta frv. að renna ljúflega í gegnum þingið. Staðreyndin er sú að fyrir kosningar þegar við sem sitjum á hinu háa Alþingi vorum að leita eftir tilstyrk þjóðarinnar til að verða kjörin á þing lofuðu allir stjórnmálaflokkar að ef þeir kæmust að kjötkötlunum myndu þeir auka veg menntunar. Það er rétt sem fram hefur komið að líklega hefur Sjálfstfl. verið einn flokka sem ekki lagði áherslu á að samtímagreiðslur yrðu teknar upp en þeir ætluðu alveg eins og hinir að auka veg menntunar í landinu. Þeir sögðust allir sjá og skilja vandann sem ungt fólk stæði frammi fyrir. Kynslóðin sem hefur það lakara en kynslóðin á undan henni, kynslóðin sem á að horfast í augu við óráðsíu fyrri kynslóða, býr við gatónýtt húsnæðiskerfi, borgar lán sín upp í topp og þarf að forgangsraða þegar hún metur hvort hún vilji eignast húsnæði eða mennta sig.

Ég ætla ekki að endurtaka þær tölur sem stúdentaráð Háskóla Íslands hefur vakið athygli á varðandi möguleika námsmanna á því að eignast húsnæði að námi loknu. Þeir þurfa að hafa svo háar tekjur, a.m.k. til að þeim sé mögulegt að eignast þak yfir höfuðið að námi loknu, að einungis fámennur hópur getur fallið undir það. Nema þeir sem eru svo heppnir að eiga vel stæða foreldra sem geta lagt verulegan stofn fram til húsnæðiskaupa fyrir börnin sín. Það er bara ekki í svo mörgum tilvikum þannig. En jafnvel þótt námsmennirnir ætli nú ekki að kaupa sér húsnæði að námi loknu þurfa þeir líka á vel stæðum foreldrum eða þokkalega stæðum foreldrum eða aðstandendum að halda til þess að geta yfirleitt fengið lán og það gerir krafan um að þeir þurfi að skila ábyrgðum þegar þeir fá lán hjá Lánasjóði ísl. námsmanna. Fólk þarf alltaf að eiga einhvern að sem getur skrifað upp á og það er einu sinni þannig að því miður eiga ekki allir eignir til þess að veðsetja í þágu barnanna sinna og menntunar þeirra. Þess vegna er það m.a. lagt til í bráðabirgðaákvæði þess frumvarps, sem hér er lagt fram, að það sé m.a. skoðað hvort ekki sé hægt að taka einhvern veginn á þessu fyrirkomulagi. Svo virðist sem allir stjórnmálaflokkar, sem eiga sæti á Alþingi, séu sammála því að það sé gott að fjárfesta í menntun, það sé nauðsynleg undirstaða efnahagslegra framfara o.s.frv. Hins vegar eru mjög deildar meiningar um það hvernig þetta skuli gert. Við viljum skoða þann möguleika hvort ekki sé hægt á einhvern hátt að koma því þannig við að fólk þurfi ekki alltaf að eiga sér þennan bakhjarl vegna þess að það gerir það einfaldlega að verkum að þeir sem eiga minnst og fæsta að eiga minnsta möguleika á að mennta sig.

Það sem skiptir kannski mestu máli í umræðunni er það sem allir bíða eftir og það er spurningin um það hvernig endurskoðun hæstv. ríkisstjórnar á lögunum um Lánasjóð íslenskra námsmanna líði.

[14:45]

Hæstv. menntmrh. svaraði fyrirspurn minni við 1. umr. um fjárlög að endurskoðunin væri væntanleg, lagt yrði fram frv. mjög bráðlega. Ég hef hins vegar heyrt að mikill ágreiningur sé í þessu starfi um samtímagreiðslurnar. Ég vil hreinlega fá svör við því hvað stendur til að gera í þeim efnum og hver er stefna Sjálfstfl. í þeim efnum. Hún er skýr hvað Framsfl. varðar og ég geri ráð fyrir að Framsfl. standi stíft á loforðum sínum og prinsippum í þessum málum. Spurningin er hins vegar hver stefna Sjálfstfl. sé í þessum málum. Er Sjálfstfl. fylgjandi því, er hæstv. menntmrh. fylgjandi því að taka upp samtímagreiðslur námsmanna? Ég held að tími sé kominn til að hann svari þeirri spurningu þó hann hafi a.m.k. reynt að koma sér undan henni hingað til.

Auðvitað snýst endurskoðun á lögunum um Lánasjóð íslenskra námsmanna að miklu leyti um þau tvö grundvallaratriði sem er tekið á í því frv. sem hér er lagt fram. Það er endurgreiðslubyrðin annars vegar sem er hreinlega skömm að því hún er orðin það há. Við getum ekki komið svona fram við þá kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi. Síðan er það spurningin um samtímagreiðslurnar. Endurskoðun á öðrum þáttum um lánasjóðinn eru hreinlega aukaatriði. Þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé að hæstv. menntmrh. svari því hér og nú hver stefna hans er varðandi samtímagreiðslur námsmanna. Hverrar skoðunar er hann og ekki síður hver er stefna Sjálfstfl.?

Nefndin sem á að vera að endurskoða lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna hefur tekið í það ansi góðan tíma og eftir því sem ég hef haft upplýsingar um var að a.m.k. þriggja mánaða hlé á fundum nefndarinnar áður en hún skilaði nokkurri niðurstöðu. Ég spyr hæstv. menntmrh. hér og nú og vonast til að hann svari því: Hefur nefndin tekið til starfa aftur og hvenær er niðurstöðu að vænta? Á meðan nefndin og á meðan hv. ríkisstjórnarflokkar eru að gera upp við sig hver niðurstaðan verður í þessu mikilvæga máli bíða námsmenn eftir því að fá að heyra um það hver framtíð þeirra verður í þessum efnum því að hér er um stóra fjárhagslega hagsmuni að ræða fyrir ungt fólk. Ríkisstjórnin kemst ekki upp með það öllu lengur að svara ekki þessari grundvallarspurningu.

Það er líka mikilvægt að rifja það upp í þessari umræðu sem hefur reyndar verið rifjað upp við önnur tækifæri í þinginu en verður líklega aldrei of oft sagt að ríkisstjórnin lofaði því í stefnuyfirlýsingu sinni, því ágæta plaggi, við stjórnarmyndunina að tryggja öllum tækifæri til náms án tillits til búsetu eða efnahags. Þróunin hefur hins vegar verið sú að barnafólki hefur fækkað í námi. Fólki utan af landi hefur fækkað í námi, m.a. vegna fyrirkomulags um námslánin. Ég spyr hæstv. menntmrh.: Telur hann sig með þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið og ekki síst Sjálfstfl. vera að uppfylla þau loforð sem gefin voru við stjórnarmyndun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar?