Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 15:01:53 (439)

1996-10-17 15:01:53# 121. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (samtímagreiðslur o.fl.) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[15:01]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. að meginatriðið sem þarf að skoða þegar lögin verða endurskoðuð eru endurgreiðslureglurnar. Ég held að þær séu það atriði í gildandi lögum sem þurfa athugunar við með hliðsjón af reynslunni sem fengist hefur frá 1992. Ég er innilega sammála hv. þm. um það atriði.

Hann spyr hvort fyrir liggi hvaða breytingar lögin frá 1992 hafi haft í för með sér. Á síðasta þingi var rædd athugun sem var gerð á breytingum á högum námsmanna og eins og kom fram í þeim umræðum er ekki svo auðvelt að flokka mál þannig og segja: Þetta á rætur að rekja til nýrra laga um Lánasjóð ísl. námsmanna eða ýmislegt annað hefur einnig breyst í þjóðfélagi okkar á þeim tíma sem liðinn er frá 1992. Ég held að það sé því ekki unnt að slá neinu föstu um það hvað þessar breytingar hafa haft í för með sér en athuganir liggja fyrir og menn geta síðan deilt um það hvort það er lánasjóðurinn eða eitthvað annað sem veldur því að streymi námsmanna til náms hefur breyst eða skipan mála í skólakerfinu hefur breyst á einn eða annan hátt. Það er rangt að halda því fram að breytingin frá 1992 hafi leitt til fækkunar námsmanna, það er alrangt. Engar tölur sýna að dregið hafi úr aðsókn að námi eftir að þessi nýju lög voru sett. Þvert á móti hafa þau treyst lánasjóðinn í sessi, gert fært að endurvekja hann og styrkja en lögin eru til endurskoðunar. Nefndin er að ljúka störfum og niðurstöður hennar verða kynntar á þinginu.