Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 15:07:27 (442)

1996-10-17 15:07:27# 121. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (samtímagreiðslur o.fl.) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[15:07]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvar hæstv. menntmrh. hefur verið á undanförnum árum. Við erum búin að standa í styrjöld ár eftir ár vegna hrikalegs niðurskurðar í menntakerfinu. Minni ég þar á grunnskólann sem menn hafa verið að reyna að bæta upp. Ég minni á framhaldsskólana sem sæta um 200 millj. kr. niðurskurði. Háskóli Íslands hefur rekið upp ramakvein ár eftir ár og ekki að ástæðulausu til þess að hann geti staðið undir sínum skuldbindingum.

Hæstv. forseti. Það gengur ekki hvernig hefur verið skorið niður til menntakerfisins. Það er staðreynd að þarfirnar aukast stöðugt. Háskóli Íslands hefur bent á að nemendum hefur fjölgað þar um mörg hundruð. Það kallar auðvitað á aukna þjónustu á meðan þeir hafa sætt niðurskurði eða staðið í stað hvað varðar upphæðir. Hvað varðar það að forgangsraða innan menntakerfisins þá spyr ég hvort einhver ákveðin prósenta eigi að fara til menntamála. Á ekki þörfin að ráða? Við hljótum að þurfa að komast að samkomulagi um það í samfélagi okkar að það eru ákveðin verkefni sem ríkisvaldið á fyrst og fremst að sinna og þar set ég efst á blað menntamál og heilbrigðismál. Það eru hin mikilvægu verkefni sem við eigum að sinna úr sameiginlegum sjóðum okkar og við þurfum að lifa af því bæði að afla tekna og skera niður annað á móti. Ég get ekki samþykkt að þessi ríkisstjórn eða sú fyrri hafi sérstaklega hlúð að menntakerfinu á Íslandi Það er því miður í mikilli kreppu vegna fjárvöntunar og það þurfum við að horfast í augu við.