Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 15:31:27 (444)

1996-10-17 15:31:27# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[15:31]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. 9. þm. Reykn. Guðmundur Árni Stefánsson segir að það eina fréttnæma sem ég hafi fundið í þessu frv. hafi verið um húsin hérna við hliðina. Það er rétt. Margir hv. þm. hafa spurt um fjölda þátta í þessu frv. en ég taldi ekki ástæðu til að vera að rekja það upp aftur. Mér finnst aftur á móti mjög mikilvægt að gæta virðingar Alþingis, þeirrar virðingar að lögum sé framfylgt. Og þegar í ljós kemur að Alþingi sjálft framfylgir ekki eigin lögum, þ.e. fjárlögum fyrir 1996 sem samþykkt voru fyrir 10 mánuðum --- það líkar mér ekki. Og það að forsn., fjárln. og formenn þingflokka sem einstakir hv. þm. hafa verið að gera eitthvert samkomulag, eitthvert baktjaldamakk, í blóra við þingið -- það líkar mér enn þá síður. Hv. þm. sagði að 1. þm. Reykn., Ólafur G. Einarsson, hefði tekið mig í kennslustund. Mig langar ekki til að læra þetta, svo einfalt er það. Mig langar ekki til að læra það að einstakir þingmenn, hvort sem þeir heita forsn., fjárln. eða formenn þingflokka, geti búið til samkomulag sem gengur þvert á vilja Alþingis þar sem sitja 63 þingmenn. Það er því vilji Alþingis sem gildir og ekkert annað. Það að lög og reglur og venjur og hefðir geri eitthvað --- ég lít alltaf á að það séu lög Alþingis sem gilda en ekki einhver lög, reglur og hefðir sem einstakir þingmenn menn eru að búa til í blóra við vilja Alþingis.