Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 15:58:11 (452)

1996-10-17 15:58:11# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., Flm. ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[15:58]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um tóbaksverð og vísitölu. Þessi tillaga hefur verið flutt mjög svipuð áður, en er endurflutt hér í nokkuð breyttri mynd. Hún er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa nefnd til að semja frumvarp til laga sem miði að því að slitin verði tengsl tóbaksverðs og vísitölu sem notuð er um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.

Stefnt skal að því að leggja slíkt frumvarp fram í upphafi næsta þings og verði gildistaka miðuð við 1. janúar 1998.``

Greinargerðin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Í lok síðasta þings voru samþykktar allveigamiklar breytingar á lögum nr. 74/1984, um tóbaksvarnir, ekki síst í því skyni að hamla gegn tóbaksneyslu barna og unglinga. Breytingar þessar voru vissulega til bóta og eru líklegar til nokkurs árangurs. Þar er þó ekki gripið til þess úrræðis sem telja má hvað áhrifaríkast til þess að minnka tóbaksneyslu ungmenna, þ.e. raunhækkunar á tóbaksverði.

Almennt er viðurkennt --- og styðst við fjölda athugana --- að sterk tengsl séu milli tóbaksverðs og tóbaksneyslu. Sé tóbaksverð hækkað er reglan sú að það leiðir til minni tóbaksneyslu. Svonefnd verðteygni, þ.e. þau áhrif sem ætla má að hækkun umfram almennar verðbreytingar hafi á neyslu virðist hvað tóbak snertir vera á bilinu mínus 0,3 til mínus 0,6 en það merkir að hækki tóbaksverð um 10% verði neyslan frá 3% í allt að 6% minni en hún hefði ella orðið.

Ítarleg bresk rannsókn sýndi að tóbaksverð hafði áhrif á tóbaksneyslu í öllum tekjuhópum þjóðfélagsins en hlutfallslega því meiri sem tekjur voru lægri. Einnig hefur verið sýnt fram á að eftirspurn eftir tóbaki er í öllum aldursflokkum háð tóbaksverði. Mest eru áhrifin á tóbakskaup unglinga og ungs fólks, svo sem fram hefur komið í rannsóknum í Bandaríkjunum og Kanada. Athyglisvert er að verðið hefur ekki síður áhrif á það hve margir reykja en hitt hve mikið er reykt.

Ljóst er því að veruleg hækkun tóbaksverðs umfram almennar verðhækkanir getur verið áhrifamikið tæki til að draga úr tóbaksneyslu almennt og ekki síst til að koma í veg fyrir að ungt fólk byrji að reykja.

Á þessu er byggt í íslensku heilbrigðisáætluninni frá 1991 þar sem mælt er með slíkum hækkunum tóbaks og áfengis í því skyni að draga úr neyslunni. Þar sem heildarneysla minnkar hlutfallslega minna en verð hækkar mundi verðhækkunin auk þess ekki leiða til tekjutaps fyrir ríkissjóð heldur tekjuaukningar.

Í nefndaráliti heilbr.- og trn. Alþingis um frv. til áðurnefndra breytinga á lögum um tóbaksvarnir segir að rætt hafi verið um það í nefndinni ,,hvort æskilegt væri að hækka verð á tóbaki í forvarnarskyni`` en það sé ,,tæknilega erfitt vegna tengsla tóbaks við vísitölu neysluverðs`` og sé engin tillaga flutt af nefndinni um það.

Þáltill. þessi miðar að því að rjúfa slík tengsl með því að jafnhliða útreikningi hefðbundinnar vísitölu neysluverðs verði reiknuð sérstök vísitala án tóbaks til að nota við ákvarðanir um lánskjör. Þess má geta að þrjú Evrópulönd, Belgía, Frakkland og Lúxemborg, hafa þegar farið þessa leið í samræmi við tilmæli frá Evrópusambandinu og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Getið skal að lokum könnunar sem Hagvangur gerði fyrir tóbaksvarnanefnd árið 1991. Meiri hluti þeirra sem afstöðu tóku lýsti sig fylgjandi því að tóbaksverð hefði ekki áhrif á framfærsluvísitölu. Jafnvel í hópi þeirra sem reyktu var meiri hlutinn þessu fylgjandi.``

Kjósendur eru að langmestu leyti hlynntir því að sérstakar reglur gildi um tóbak sem neysluvöru.

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. og forsrh. hafa áður verið spurðir um möguleika þess að taka tóbak út úr vísitölunni þannig að hægt væri að hækka verð á tóbaki verulega í forvarnaskyni. Hæstv. ráðherrar hafa svarað því til að tæknilega væri það hægt, en ekki í framkvæmd. Evrópusambandið beinir þeim tilmælum til aðildarlanda sinna að fara þessa leið og því hlýtur hún að vera fær ef pólitískur vilji er fyrir hendi eins og var í Belgíu, Frakklandi og Lúxemborg.

Vísitala neysluverðs mælir neyslu meðalfjölskyldu hvort sem neyslan er heilsusamleg eða ekki. Neyslan er mæld á fimm ára fresti og breytist milli kannana og tekur þar af leiðandi tillit til minnkandi tóbaksneyslu Íslendinga eins og hún hefur verið undanfarin ár, en því miður hafa síðustu kannanir sýnt að aukning hefur orðið á reykingum núna í allra síðustu könnun.

Eitt er að mæla neysluna og annað mál er hvort það þyki eðlilegt að telja tóbak með neysluvöru þegar reikna á út lánskjaravísitölu. Tóbak er sterkt ávanabindandi efni sem hefði átt fyrir mörgum árum að flokkast sem slíkt. Krabbameinsvaldandi efni tóbaksins eru vel þekkt og ætti því að vekja enn frekari spurningar um hvort eðlilegt geti talist að láta þessa vöru hafa áhrif á verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Það að taka tóbakið út úr vísitölu sem notuð er til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár er spurning um pólitískan vilja því að útreikningurinn er ekki flókinn. Þáltill. fellur að tíu markmiðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í tóbaksvörnum. Hvort eiga að ráða heilbrigðissjónarmið eða gróðavon tóbaksfyrirtækja þegar ákvarðanir eru teknar um verðlagningu og dreifingu tóbaks? Eða á að hugsa um skatttekjur ríkisins af sölu tóbaks og láta þau sjónarmið ráða? Ástæða er til að ætla að beinar tekjur af tóbakssölu muni aukast á næstunni verði þessi þáltill. samþykkt þó svo salan minnki af þessum sökum.

Þegar tóbak á í hlut eiga heilbrigðissjónarmið að ráða og ákvarðanir teknar út frá þeim sjónarmiðum eins og mælt er fyrir í nýjum tóbaksvarnalögum og íslenskri heilbrigðis\-áætlun. Minnkun tóbaksnotkunar og þá sérstaklega reykinga er þjóðhagslega hagkvæm því að það fækkar sjúklingum og dauðsföllum af völdum tóbaks. Minnkun tóbaksnotkunar lækkar kostnað í heilbrigðiskerfinu vegna færri sjúkrahúsinnlagna og lægri lyfjakostnaðar. Minni tóbaksnotkun eykur þjóðarframleiðslu þar sem færri deyja ótímabærum dauða og færri eru fjarverandi frá vinnu vegna tóbaksneyslu og tóbakstengdra sjúkdóma.

En er tóbakið svo skaðlegt að ástæða sé til þess að vera með sérstakan útreikning í vísitölunni? Svar mitt er já. Vara sem er enn seld sem neysluvara en er í raun samkvæmt nýlegum rannsóknum jafnávanabindandi efni og heróín og kókaín hlýtur að hafa sérstöðu í neyslunni. Á árinu 1990 er talið að 3 milljónir manna hafi dáið ótímabærum dauða af völdum reykinga og þessi tala fari í 10 millj. árið 2020 og þetta er samkvæmt spá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Ef við lítum á íslenskar tölur, þá valda reykingar um 80 krabbameinsdauðsföllum á ári, 1--2 á viku. Konum sem látist hafa úr lungnakrabbameini hefur stöðugt fjölgað og hafa verið fleiri en karlar núna síðustu árin. Fjöldi kvenna sem látast úr brjósta- og lungnakrabbameini er nú svipaður. Af 878 krabbameinstilfellum sem greindust 1993 voru 115 krabbameinstilfelli af völdum reykinga. Af þessum tölum má áætla að um 200 tilfelli muni greinast af völdum reykinga árið 2000.

Um 150 reykingatengd dauðsföll eru nú árlega af völdum kransæðasjúkdóma og önnur 25 af völdum lungnaþembu og berkjubólgu. Alls eru þetta því um 250 Íslendingar sem deyja árlega ótímabærum dauða af völdum reykinga. Að mínu mati er þetta næg ástæða til þess að taka tóbakið og tóbaksneysluna alvarlega og gera sérstakar ráðstafanir til þess að hækka verð á tóbaki. Þessi upptalning ætti að vera okkur næg ástæða til þess að koma á öllum þeim takmörkunum á tóbaksnotkun sem við verður komið, sérstaklega þegar ungt fólk og unglingar eiga í hlut. Nýjar rannsóknir sýna að fólki sem byrjar ungt að reykja er hættara en öðrum reykingamönnum við tóbakstengdum sjúkdómum. Tóbakið er auk þess oft fyrsti vísirinn að neyslu ólöglegra fíkniefna.

Einmitt þess vegna og vegna þeirrar vitneskju sem við höfum fengið um þróun fíkniefnaneyslu ungs fólks hér á landi er rétt að spyrjast fyrir um frétt af landsfundi sjálfstæðismanna þess efnis að það eigi að færa sölu tóbaks úr höndum ÁTVR, eða Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, til dreifingaraðila og eins um nýfrágengnar reglur um innkaup Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á tóbaki.

ÁTVR hefur haft einkasölu á tóbaki yfir 60 ár og hefur undanfarin ár unnið eftir stefnu stjórnvalda í tóbaksvörnum, þ.e. stofnunin hefur verið íhaldssöm á að hleypa nýjum tegundum inn á markaðinn. Ástæða þess er einföld. Fjöldi kannana sýna að fólk sem reykir er mjög fastheldið á sína tegund. Um 20% skipta á milli tegunda. Flestir skipta á milli styrkleika innan sömu tegundar og aðeins um 2% skipta um tegund. Varla eru þessi 2% nægilega stór markaður fyrir nýjar sígarettutegundir, enda er það ekki. Nýjar tegundir höfða mest til unglinga, þeirra sem ekki reykja og hvetur fólk sem reykir til að halda áfram reykingum.

Beinar auglýsingar eru bannaðar á Íslandi, en við vitum vel hvernig auglýsingabanni áfengis er nú framfylgt og það er barnaskapur að halda að fyrirtæki eins og Philip Morris, sem er sterkast á tóbaksmarkaðnum í dag, komi sinni vöru ekki á framfæri í svo miklum mæli að þeir festist á markaðnum. Þá munar ekki um að kaupa upp þær birgðir sem þarf til að komast inn með fulla markaðshlutdeild. Við höfum í engu skuldbundið okkur til að breyta skipulagi og innkaupum tóbaks. Herra forseti. Því vil ég fá að beina orðum mín til hæstv. fjmrh. og spyrja eftirtalinna spurninga:

Hvers vegna var innkaupareglum ÁTVR breytt? Er það stefna fjmrn. að umboðsmenn annist sjálfir dreifingu tóbaks í stað ÁTVR? Tóbakstegundum fjölgar með nýjum innkaupareglum og hvernig samræmist það stefnu nýju tóbaksvarnalaganna og íslenskri heilbrigðisáætlun? Var haft samráð við tóbaksvarnanefnd og heilbrrh. um málið? Ætlar fjmrh. að beita sér fyrir hærri framlögum til tóbaks- og fíkniefnavarna til að vega upp á móti þessum aðgerðum? Er það rétt að tóbaksfyrirtæki Philip Morris hafði ekki áhuga á að vera inni á íslenska markaðnum á meðan núverandi aðvörunarmerkingar eru í gildi en sækjist eftir því nú eftir að við verðum að taka upp samræmdar merkingar Evrópusambandsins en þær eru mun minni og margar lítt áberandi?

Herra forseti. Ég vænti svara frá hæstv. fjmrh. og legg til að þáltill. verði vísað til síðari umr. og til hv. heilbr.- og trn.