Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 16:21:05 (454)

1996-10-17 16:21:05# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[16:21]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru ansi merkilegar umræður sem hér eru að eiga sér stað og upplýsingarnar sem koma fram í svari við þessari ágætu spurningu frá hv. þm. Þuríði Backman eru mjög merkilegar. Ég fæ ekki séð annað en hæstv. fjmrh. sé að segja það við þingheim að vegna þess að stór risi í framleiðslu sígarettuvarnings óskar eftir því að reglum á Íslandi verði breytt til þess að auðvelda honum að komast inn á markaðinn, þá er óskað eftir því að slíkum reglum verði breytt.

Hæstv. fjmrh. upplýsir það líka að hann veit ekki til þess og hann dregur í efa að það hafi verið haft samband við tóbaksvarnanefnd og veit ekki um heilbrrn. Satt að segja trúi ég þessu varla, herra forseti, og ég verð að biðja hæstv. fjmrh. að upplýsa hér: Hver er það? Hvaða stjórnvald var það sem óskaði eftir því að þessum reglum yrði breytt hjá ÁTVR? Og getur hæstv. fjmrh. fullvissað þingheim um það í framhaldi af þessum umræðum að þetta sé ekki gert til þess að hjálpa Philip Morris til að koma með þennan varning inn á íslenskan markað? Ég vek athygli á því, herra forseti, að hæstv. fjmrh. orðaði það svo að þessi breyting væri gerð til þess að menn ættu möguleika til þess að koma með ný merki inn á íslenska markaðinn. Eru það kannski merkin Philip Morris? Ég spyr.

Ég vek líka athygli á því, herra forseti, að það að opna nýjum merkjum leið inn á markaðinn hlýtur að leiða til þess sem við vorum í fyrra að reyna að koma í veg fyrir, þ.e. að menn færu í óbeinar auglýsingar.

Herra forseti. Ég tel að hér hafi hæstv. fjmrh. sem yfirleitt talar manna skýrast, gefið það loðin svör að það sé algerlega nauðsynlegt að hann hreinsi loftið í þessum efnum.