Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 16:22:55 (455)

1996-10-17 16:22:55# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[16:22]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði það mjög skýrt í mínu máli áðan að óskin til stjórnar ÁTVR hefði komið frá fjmrn. og ég skýrði af hverju það er. Menn verða að sætta sig við það að farið sé að reglum og lögum. Jafnvel þegar verslað er með hluti eins og tóbak og áfengi, þá verðum við að sætta okkur við það að fara að öðrum lögum og fara eftir tilgangi laganna, þeirra laga sem við sjálf höfum sett. Það var mat þeirra lögfræðinga sem beðnir voru um álit á málinu eftir að hafa legið yfir því nokkurn tíma að við yrðum að breyta reglunum.

Nú skal það tekið fram að samkvæmt þeirri breytingu sem átt hefur sér stað, þá er ekki ... (Gripið fram í: Hvaða lögfræðingum?) Þar á meðal lögfræðingum ráðuneytisins, og þá skal það tekið fram að það er í raun og veru engin trygging fyrir því að Philip Morris komi sínum vörum að. Þessu er skipt upp. Tóbaki er deilt í þrjá söluflokka, þ.e. kjarna, reynsluflokk og sérpantanir líkt og gerðist með áfengi á sínum tíma. Síðan fellur út sala á vissum tegundum, þeim sem ekki seljast í nægilegu magni, eftir nokkra mánuði. Það skal tekið fram að þessi nýja reglugerð tekur gildi í febrúar á næsta ári og þeir sem óska eftir því að koma inn á markaðinn með nýjar tegundir verða að bera allan kostnað af því. Hér er þess vegna, held ég, um alveg eðlilega ráðstöfun að ræða. Það er ekki verið að lækka verð á tóbaki heldur einungis verið að sinna þeim nauðsynlegu atriðum sem þarf að sinna þegar menn eru að versla með hluti og það er að gæta þess að fylgt sé íslenskum lögum og þeim tilgangi þeirra laga sem við sjálf höfum sett á hinu háa Alþingi.