Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 16:32:14 (461)

1996-10-17 16:32:14# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[16:32]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Ég hygg, virðulegi forseti, að lögfræðiálitið þurfi ekki að vera skriflegt. Lögfræðingar ráðuneytisins settust yfir þetta og þetta er niðurstaðan eftir að þeir höfðu borið sig saman við aðra þannig að ég efast um að það sé til neitt skriflegt. En það er alveg sjálfsagt að færa það í ritaðan texta ef það kemur sér betur fyrir hv. þingmenn því að þetta byggir á ákveðnum grundvallarsjónarmiðum í íslenskum rétti.

Ég vil líka geta þess að við lifum einu sinni í þeim harða heimi að það eru fluttar inn sígarettur til landsins og það undir ýmsum merkjum og fólk reykir mismunandi sígarettutegundir. Þær eru auglýstar óbeint, t.d. í innfluttum tímaritum, það þarf ekki að horfa á sjónvarp, heldur í innfluttum tímaritum sem margir lesa, þar á meðal margir þingmenn lesa, þannig að við búum þegar við slíkt áreiti. Aðalatriði málsins er frá mínum bæjardyrum séð að það sé ljóst að álagning á þessa vöru sé þannig að komið sé sem mest í veg fyrir að ungt fólk byrji að reykja og ég er alveg sammála öllum þeim sjónarmiðum. Og ég bið um að menn skoði þessa aðgerð sem aðgerð til þess að fara að lögum og rétti og leyfi sér ekki að koma hér upp og halda því fram a.m.k. að fjmrn. sé að reyna að auka reykingar fólks á Íslandi. Það er ekki tilgangurinn.