Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 16:33:46 (462)

1996-10-17 16:33:46# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[16:33]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er satt að segja að verða býsna alvarlegt mál. Það kemur í ljós að fjmrn. segir í upphafi að það hafi lögfræðiálit um málið. Svo kemur í ljós eftir mörg andsvör að það eru munnleg skilaboð, einhver samskipti á milli embættismanna ráðuneytisins og fjmrh. í þessu máli. Þetta er fúsk. Þetta er lagafúsk. Það er algerlega ólíðandi, að mínu mati, fyrir Alþingi að taka þessu þegjandi. Ég vil þess vegna í allri vinsemd fara fram á það við hæstv. fjmrh. að hann stuðli að því að hv. heilbr.- og trn. fái þetta mál til meðferðar og að hún fari yfir allar lagaforsendur málsins áður en þessi nýja regla eða þessi nýi innkaupalisti tekur gildi. Hér er auðvitað um veruleg tíðindi að ræða og alveg greinilegt að samráðsleysið er lögbrot miðað við þær ábendingar sem fram komu hjá hv. varaformanni hv. heilbr.- og trn. áðan. Ég segi það því í fullri vinsemd við hæstv. fjmrh. að ég fer formlega fram á það að hann stuðli að því að heilbrn. fái þetta mál til sérstakrar skoðunar. Og ég segi líka við hv. formann heilbrn. og varaformann sem hér eru í salnum: Auðvitað getur nefndin að eigin frumkvæði tekið málið til sjálfstæðrar rannsóknar samkvæmt þingsköpum. Það er ljóst að það er meiri hluti í nefndinni, sýnist mér á öllu, fyrir því að málið verði tekð til athugunar og ég skora á meiri hluta heilbr.- og trn. að taka málið til athugunar ef fjmrh. þverskallast við að óska beinlínis eftir því að nefndin skoði málið.