Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 16:48:01 (467)

1996-10-17 16:48:01# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[16:48]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég fagna mjög þeirri umræðu sem fram hefur farið og tek heils hugar undir þá tillögu sem hér liggur frammi. Ég hefði reyndar kosið að þessi tillaga væri enn þá strangar orðuð. Hana hefði mátt orða svo að Alþingi feli ríkisstjórninni að koma þegar í stað með lagabreytingar um að taka tóbak út úr vísitölunni því ekki ætti að þurfa mikinn undirbúning til þess ef vilji væri fyrir hendi.

Ég minnist þess að borin var fram fsp. fyrir um tveimur árum um þetta mál og þá tók hæstv. forsrh. heldur treglega undir. Ég fæ ekki séð að neinar forsendur séu lengur fyrir að hafa tóbak inni í vísitölunni og hafna þeirri röksemd sem kom fram áðan hjá hæstv. fjmrh. að vísitalan eigi að endurspegla alla neyslu. Það er takmarkaður hópur fólks sem reykir eða notar aðrar tegundir tóbaks. Við getum spurt okkur um ýmislegt annað sem ekki er inni í vísitölunni en ætti kannski að vera þar út frá þessari röksemd. Ég mæli eindregið með að gengið verði í að gera þessa breytingu svo auðveldara verði að stjórna tóbaksverði án þess að það hafi áhrif á hækkun skulda, kjarasamninga og guð má vita hvað. Það væri hins vegar afar fróðlegt að fá reiknað út, til að hægt væri að átta sig betur á hvað slíkt þýðir, hvað helmings hækkun á sígarettum mundi þýða fyrir vísitöluna. Hvað mundi gerast ef slík hækkun ætti sér stað? Mér finnst felast ákveðin viðurkenning á tóbaki og reyndar áfengi með því að hafa þessa vöru inni í vísitölunni vegna þess að þarna er ekkert annað en um sterkt eitur að ræða.

Ég hef stundum velt fyrir mér hvernig á því stendur að illa gengur að breyta gömlum hefðum. Ef ég man rétt barst tóbak til Vesturlanda á 16. öld frá Ameríku og á sér því langar rætur í neyslu í álfunni, þar með talið á Íslandi. Það var reyndar notað sem lyf á tímabili. Í máli 1. flm. kom fram að allar nýjustu rannsóknir sýna og sanna það sem menn hafa svo sem vitað en hefur ekki fengist viðurkennt að nikótín er miklu, miklu sterkara eitur en menn hafa viljað viðurkenna og jafnast fullkomlega á við heróín og kókaín eins og flm. nefndi. Tilraunir hafa sýnt að rottur gera engan greinarmun á þessum efnum. Málið er það að sá skammtur ... (Gripið fram í: Rottur?) Já, það er yfirleitt stuðst við rannsóknir á rottum þegar verið er að kanna áhrif eiturefna. Það tíðkast ekki, sem betur fer, að gera slíkar tilraunir á mönnum og reyndar mikið barist gegn því að vera með svona tilraunir á dýrum. Það þarf ekki bara þessar rannsóknir til heldur efnafræðilegar rannsóknir sem sýna hvílíkt eitur er á ferð.

Það er alveg ljóst að tóbaksnotkun kostar samfélagið gífurlegar fjárhæðir og læknisfræðilegar rannsóknir leiða æ betur í ljós hvað tóbaksreykingar tengjast mörgum sjúkdómum. Það er ekki aðeins lungnakrabbamein sem mönnum verður starsýnt á heldur einnig hjarta- og æðasjúkdómar, sjúkdómar eins og beinþynning og tiltölulega nýbúið er að sýna fram á tengsl tóbaksreykinga við aðrar tegundir krabbameins, t.d. leghálskrabbamein. Staðreyndir um skaðsemi tóbaks verða því sífellt meiri og fleiri.

Ég tók með mér í ræðustól útprentun af Internetinu upplýsingar um heilsu kvenna. Þetta er allt saman frá Bandaríkjunum og þar kemur einmitt í ljós að lungnakrabbamein er farið fram úr öllum öðrum tegundum krabbameins sem valdur að ótímabærum dauða einkum meðal eldra fólks og sérstaklega meðal kvenna. Þetta er nákvæmlega sama þróunin og hér að dauði af völdum lungnakrabbameins hefur verið mjög vaxandi sérstaklega meðal kvenna. Það beinir auðvitað athyglinni að því að tóbak hefur meiri og önnur áhrif á konur en karla. Benda má á það, sem fólk áttar sig kannski ekki á, að þegar kona reykir einn pakka af sígarettum er hún í raun að taka inn meira magn af nikótíni en meðalkarlmaður, ef við tökum meðalkonu og meðalkarl vegna þess að konur eru einfaldlega minni fyrir utan það að tóbak hefur önnur líkamleg áhrif. Áhættuþættir hjá konum sem tengjast tóbaksnotkun eru aðrir þannig að gríðarlega mikilvægt er bæði vegna heilsufars og vegna hins mikla kostnaðar sem tóbaksnotkunin hefur í för með sér að taka miklu, miklu harðar á þessum málum en við gerum. Ég er alltaf að verða fanatískari og fanatískari í baráttunni gegn tóbaki og mér finnst alveg hræðilegt að horfa upp á ungt fólk vera að reykja, ég tala nú ekki um unglinga 13, 14, 15 ára. Við þurfum verulega að taka okkur á í forvörnum vegna þess hvað þetta er hættulegt og vont mál á allan hátt.

Ég hefði viljað fá fram skýrari afstöðu ríkisstjórnarinnar til þessa máls og beini þeirri spurningu til hæstv. heilbrrh. hvort henni finnist sú leið sem lögð er til í tillögunni vera rétt og muni auðvelda hækkun á tóbaki og styrkja þar með forvarnir og draga úr tóbaksnotkun. Mun hún beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að fara þessa leið? Ég held að allar röksemdir sem hafa komið fram gegn því að taka tóbak út úr vísitölunni séu heldur veikar. Við mundum stíga mikilvægt skref í átt til aukinna forvarna með því að fara að þessari tillögu og eigum ekki að fara neinn krók í því sambandi heldur gera það strax.