Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 17:04:24 (469)

1996-10-17 17:04:24# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[17:04]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mig langaði aðeins að koma leiðréttingu á framfæri í ljósi málflutnings hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar sem var ekki alveg réttur að öllu leyti.

Hv. þm. sagði að ÁTVR hefði ekki haft samráð við neinn. Það er alrangt. Hið rétta er að Höskuldur Jónsson, forstjóri ÁTVR, sendir bréf þar sem beðið er um að bæði heilbrrn. og tóbaksvarnanefnd sendi inn umsögn varðandi þetta mál. Hins vegar er það rétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að fjmrn. sendir ekki beint bréf til þess að æskja þessara umsagna. Alla vega kom það fram hjá hæstv. fjmrh. að hann vissi ekki um slíkt og ég veit ekki um slíkt heldur. Hins vegar senda bæði tóbaksvarnanefnd og heilbrrn. umsagnir sem eru neikvæðar gagnvart reglunum. Það er alveg skýrt. Tóbaksvarnanefnd er mjög neikvæð og heilbrrn. tekur undir gagnrýni tóbaksvarnanefndar á þessar nýju reglur og það er að sjálfsögðu með gildi forvarna að leiðarljósi. En hér kom fram áðan hjá hæstv. fjmrh. að vegna samkeppnissjónarmiða yrðum við að setja þessar reglur.

Ég tel hins vegar að sá málflutningur hafi verið byggður á frekar veikum grunni hér vegna þess að ekki var hægt að leggja fram neitt lögfræðiálit. Mér finnst vert að skoða það að heilbr.- og trn. taki það upp hjá sér í ljósi þess um hve alvarlegt mál er að ræða. Við erum hugsanlega að stuðla að stórfelldum reykingum unglinga. Því finnst mér eðlilegt að við skoðum það í heilbr.- og trn. að fá álit ríkislögmanns á þessu alvarlega máli.