Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 17:21:48 (475)

1996-10-17 17:21:48# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[17:21]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hér hefur orðið mikil umræða um tóbaksvarnir, mjög góð umræða að mínu mati. Við samþykktum löggjöf á síðasta þingi, lög um tóbaksvarnir, og það er mikilvægt að við fylgjum þeirri löggjöf eftir. Það er merk löggjöf og var samþykkt samhljóða í þingsal. Við þurfum að auka eftirlit með að þessum lögum sé fylgt eftir og einmitt sú kveikja sem hér hefur orðið að umræðunni, sú tillaga sem liggur fyrir um að hækka verð á tóbaki, er auðvitað ein varnaraðgerð sem skiptir mjög miklu máli. Og það að tóbaksverð tengist ekki vísitölu hefur verið reynt í þrem löndum eins og fram hefur komið. Það er nauðsynlegt að við skoðum nákvæmlega hvað það hefur þýtt í þessum löndum varðandi minnkandi tóbaksneyslu. Nefnd heilbrigðis- og tryggingamála mun að sjálfsögðu skoða það.

Mér finnst að við eigum ekki að láta neins ófreistað til að minnka reykingar í landinu og ef þetta er sú leið sem er fær, þá förum við hana. Mikil umræða hefur verið um ákvörðun, sem tekin var í stjórn Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins fyrir viku, um að fjölga vindlingategundum sem hér eru á markaðnum. Sú umræða hefur verið býsna beinskeytt og það er af hinu góða. Hún þarf að vera það. Hér eru menn að tala í alvöru um að minnka reykingar í landinu og þá beitum við þeim aðferðum sem eru færar.

Það hefur komi fram í máli hæstv. fjmrh. að í sambandi við lög og reglur um samkeppni séum við á meira en gráu svæði --- svörtu svæði --- og þess vegna þurfi að breyta þeim reglum sem ÁTVR hefur hingað til farið eftir. En það hefur líka komið fram í þessari umræðu að það er ekki á kristaltæru og heilbr.- og trn. Alþingis fær það verkefni að grennslast fyrir um hvort nauðsynlegt er samkvæmt öðrum lögum að opna enn frekar markaðinn fyrir nýjum tegundum. Mér finnst þetta vera mergurinn málsins og er verkefni heilbr.- og trn. næstu daga og vikur. Um þetta er samkomulag. Hæstv. fjmrh. opnaði fyrir þessa umræðu áðan. Það er samkomulag um það í þingsal þannig að það er ekkert annað en að bretta upp ermar og skoða: Er nauðsynlegt að hleypa inn fleiri innflytjendum í þessum bransa, ef svo má segja?

Að öðru leyti er öll umræða um tóbaksvarnir af hinu góða. Það er rétt sem fram hefur komið að tóbaksneysla ungs fólks hefur aukist verulega á sl. tveimur til þremur árum. Það er víst tíska í gangi, við verðum að horfast í augu við það og okkar er að breyta þessari tísku. Það er okkar að finna leiðir til að breyta þessari tísku. Við gerum það ekki með því að standa í þessum ræðustól og auglýsa sérstaklega einhverjar vissar tegundir. Ég held að við ættum að vara okkur á því. (SvG: Hvaða tegundir?) Ja, sem betur fer, hv. þm. Svavar Gestsson man ég ekki allar þessar tegundir enda hef ég lítinn áhuga fyrir tóbaki yfir höfuð nema að sporna gegn neyslu þess.

Ég þakka hv. 1. flm. þessarar tillögu fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli því þetta er mikilvægt heilbrigðismál sem er til umfjöllunar.