Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 17:26:27 (476)

1996-10-17 17:26:27# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[17:26]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það rifjaðist allt í einu upp fyrir mér vegna síðustu orða hæstv. heilbrrh. um forvarnir og um það að beita sér gegn tóbaksnotkun. Fyrir líklega hálfum mánuði var tóbaksvarnavika í Danmörku og ég sá í dönskum blöðum að mikil áróðursherferð var í gangi. Þar á meðal hafði heilbrigðisráðuneytið í Danmörku sett sérstakar auglýsingar í kvennablöð þar sem sjónum var beint bæði að tóbaks- og áfengisnotkun kvenna. Ég vil skora á hæstv. heilbrrh. að beita sér fyrir að hér verði reglulega haldnar vikur til varnar bæði tóbaks- og áfengisnotkun vegna þess að ég held að við náum ekki árangri öðruvísi en að vera með stöðugar forvarnir og áróður í gangi. Ég verð að segja að ég fylgist kannski ekki nógu vel með en ég verð afskaplega lítið vör við það starf sem öll þessi samtök eiga að beita sér fyrir. Ég verð afskaplega lítið vör við það. Ég held að þurfi að grípa til nútímalegri aðferða í þeim áróðri og nýta þá miðla sem ná til ungs fólks sem er sjónvarp, kvikmyndasalir og kannski ýmislegt fleira.