Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 17:31:21 (479)

1996-10-17 17:31:21# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[17:31]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Af því að ég veit að sá forseti sem nú situr hefur mjúkt hjartalag og er auðveldlega snortinn af því sem fallegt er, þá verð ég að segja að ég veigra mér hálfvegis við að blanda mér í þessi hjartæmu þakkarávörp þeirra hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og hæstv. heilbrrh. en ætla þó að gera það eigi að síður. Mér fannst þetta fallegt og er svolítið snortinn af þessu og finnst auðvitað að við aðrir og e.t.v. svolítið harðari þingmenn eigum að láta okkur þetta að kenningu verða og koma hérna upp og þakka hver öðrum þegar vel er að verki staðið.

Herra forseti. Ég tek undir með þeim hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og Svavari Gestssyni að það er sennilega verkefni fyrir heilbr.- og trn. að kanna þær reglur sem hérna hafa verið til umræðu í dag. Í fyrra þegar við vorum að véla um frv. hæstv. heilbrrh. um hertar tóbaksvarnir, þá fórum við mjög náið ofan í þessi mál. Mér sýnist að nú sé að nokkru leyti verið að eyðileggja það verk sem þá var unnið, verk sem þingið fylkti sér að baki og herti varnirnar umfram það sem ríkisstjórnin hafði upphaflega lagt til. Ég tel þess vegna sjálfsagt að verða við þeirri beiðni sem bæði hv. þm. Svavar Gestsson og Siv Friðleifsdóttir hafa lagt hér fram um að nefndin kannaði hvernig þessar reglur koma við tóbaksvarnir í landinu. Mér þótti hins vegar sem hæstv. heilbrrh. stigi ekki bara feti heldur fetum framar vegna þess að hún orðaði það svo að nú hefði heilbr.- og trn. fengið það verkefni að kanna hvort nauðsynlegt væri samkvæmt lögum að auka fjölda tegundanna sem á markað koma. Það er talsvert viðameira en hafði komið fram í málum þeirra þingmanna tveggja sem ég nefndi áðan.

Ég lít svo á --- hún leiðréttir mig þá ef ég hef misskilið það --- að hæstv. heilbrrh. sé með þessu að óska eftir því að heilbr.- og trn. kanni grundvöllinn að reglunum, ekki einungis reglurnar sjálfar heldur þann lagalega grundvöll sem reglurnar standa á. Með öðrum orðum að hún kanni hvort það sé rétt sem hæstv. fjmrh. sagði í dag, að það væri óhjákvæmilegt annað út frá lögunum en breyta reglunum þannig að fleiri tegundir ættu möguleika á að koma inn á markað, svo ég noti hans óbreyttu orð.

Að öðru leyti, herra forseti, finnst mér þetta hafa verið fróðleg umræða. Hér hefur enginn talað gegn þeirri þáltill. sem var upphaf málsins. Hæstv. heilbrrh. hefur getið sér gott orð fyrir vasklega framgöngu í öllu því sem lýtur að forvörnum og sér í lagi forvörnum varðandi tóbaksneyslu. Hæstv. ráðherra hefur til að mynda sett á stofn sérstaka miðstöð til að hjálpa fólki til að hætta að reykja og hún lagði fram þetta frv. í fyrra sem hafði verið að velkjast hjá forverum hennar í einhver ár. Þess vegna finnst mér óhjákvæmilegt að hæstv. ráðherra tali mjög skýrt í þessu máli. Hún sagði um þáltill. sem hér liggur fyrir að henni fyndist að við ættum að láta einskis ófreistað til að draga úr reykingum. Ég vildi gjarnan fá skýlausa afstöðu hæstv. ráðherra og inni eftir henni: Styður hún það og er reiðubúin til þess að segja það úr þessum ræðustól að tengslin á milli vísitölunnar og verðlags á tóbaki verði rofin eins og lagt er til í þessari þáltill.? Treystir hún sér til þess að svara þeirri spurningu með einföldu jái hér á eftir?

Síðan tel ég óhjákvæmilegt annað, herra forseti, en að hæstv. heilbrrh. gefi upp skoðun sína á þeim ummælum sem helsti trúnaðarmaður hennar í heilbrigðismálum í þinginu, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, viðhafði hér í dag og sem ég tek fram að ég er alveg hjartanlega sammála. Þessi ummæli lutu að afleiðingum þeirra reglna sem hæstv. fjmrh. hefur nú staðfest. Hv. þm. sagði að hæstv. fjmrh. hefði beitt sér fyrir aðgerðum sem mundu leiða til stórfelldrar aukningar á reykingum ungs fólks. Og ég spyr: Er hæstv. heilbrrh. sammála hv. þm. Siv Friðleifsdóttur um þetta? Og ef hún er því sammála, ber henni þá ekki sem heilbrrh., sem þeim aðila innan ríkisstjórnarinnar sem ber ábyrgð á þessum málaflokki, að taka sterklega í taumana og taka þetta mál upp innan ríkisstjórnarinnar? Það er ekki nóg að óska eftir því að heilbr.- og trn. þingsins taki málið upp. Við getum gert það. Málið tengist líka framkvæmdarvaldinu og það er nauðsynlegt að hæstv. heilbrrh. lýsi því yfir hvaða afstöðu hún hefur til þessara ummæla, hvort hún er sammála því að hæstv. fjmrh., eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir ásakaði hann um í dag, sé að vinna mjög sterklega gegn þeim markmiðum sem hún lagði fram um tóbaksvarnir í frv. sínu í fyrra. Ef svar hennar er jákvætt verður hún að lýsa því yfir hvort hún hyggst í framhaldinu taka málið upp innan ríkisstjórnarinnar.

Ég ítreka það sem hefur komið fram áður í dag, herra forseti, að allur málatilbúnaðurinn varðandi þessar reglur er mjög undarlegur svo ekki sé meira sagt. Hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir að tilteknir aðilar, umboðsmenn ákveðinnar keðju sem framleiðir sígarettur, hafi komið að máli við stjórnvöld og talið nauðsynlegt og vísað til einhverra laga að þeir eins og aðrir ættu möguleika á að koma sínum varningi á framfæri. Þeir hefðu áður hafnað því vegna þess að þeir vildu ekki selja sig undir þær reglur sem þá giltu um merkingar á þessum varningi. Þessar merkingar lutu að því að benda á skaðsemi hans. Nú koma þeir og þeir knýja dyra hjá stjórnvöldum og hvað er þá gert? Reglunum er umsvifalítið breytt. Á grundvelli hvaða lögfræðiálita? Við vitum það ekki en hæstv. fjmrh. minnir að það sé ekki til nema í munnlegu formi. Ég gef ekkert fyrir munnleg lögfræðilegt. Ég vil að slík álit séu til skrifleg til þess að hægt sé að brjóta þau til mergjar. Mér finnst þetta vægast sagt vafasöm aðferð, herra forseti.

Það hefur líka komið fram að samkvæmt lögum um tóbaksvarnir ber framkvæmdarvaldinu, þá ber fjmrh. að hafa samráð við tóbaksvarnanefnd. Hvernig var það gert, herra forseti? Jú, það var að vísu óskað eftir bréfi og bréf barst bæði frá heilbrrn. og frá tóbaksvarnanefnd, en það var ekki tekið tillit til eins einasta atriðis? Er þetta að hafa lögbundið samráð? Er þetta ekki líka enn ein flísin í þessa mynd sem styrkir það að þessi vinnubrögð eru í hæsta máta mjög óeðlileg. Mér finnst ekki sem þetta mál sé fullrætt á þessu stigi, herra forseti. En ég mun eftir áskoranir hæstv. heilbrrh. og varaformanns heilbr.- og trn. og annarra þingmanna sem talað hafa í dag beita mér fyrir því að heilbr.- og trn. muni fjalla um þetta mál, annars vegar á þeim grundvelli sem varaformaður nefndarinnar hefur óskað eftir, þ.e. að kanna hvort reglurnar sem slíkar hafi einhver óæskileg áhrif á þá stefnumörkun sem hæstv. ráðherra hefur beitt sér fyrir og hins vegar á þeim grunni sem er miklu djúptækari, sem hæstv. heilbrrh. hefur óskað eftir að nefndin taki líka til skoðunar, þ.e. hvort það sé í rauninni nauðsynlegt samkvæmt gildandi lögum og alþjóðasamningum að koma fram með þessar reglur til að auka möguleika tóbaksfyrirtækja á að koma sínum merkjum á framfæri? Ég er nefnilega ekki sannfærður um að það sé nauðsynlegt og er að því leyti til sammála hæstv. ráðherra.