Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 17:48:26 (486)

1996-10-17 17:48:26# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[17:48]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að hæstv. heilbrrh. skilji ekki alveg innsta eðli formanns heilbr.- og trn. Ég er viss um að hv. þm. og varaformaður nefndarinnar, Siv Friðleifsdóttir, geti sannfært hana um að yfirvald í þeirri nefnd er milt. Það er hins vegar alger rangskilningur hjá hæstv. heilbrrh. ef hún heldur virkilega eftir þessa umræðu að aðalatriðið í málinu sé það að heilbr.- og trn. taki núna málið til umræðu. Aðalatriðið í málinu er auðvitað að það er ekki hlustað á hæstv. heilbrrh. Hún hefur upplýst það í dag að hún kom sterkum athugasemdum á framfæri. Það var ekki tekið tillit til neinna. Það er aðalatriðið. Aðalatriði málsins er það að talsmaður stjórnarliðanna í salnum, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, er þeirrar skoðunar að þetta séu stórkostlega hættulegar reglur sem búið er að samþykkja. Hún telur það þó ráðherrann telji sig ekki geta staðfest það á þessari stundu. En það var ekkert tillit tekið til hennar.

Með öðrum orðum, herra forseti, aðalatriðið er að Sjálfstfl. er að snúa niður vilja hæstv. heilbrrh. sem allir vita að hefur góða stefnu í þeim málum sem lúta að tóbaksvörnum. Það er aðalatriði málsins. En hvað heilbr.- og trn. gerir skiptir bara ekki höfuðmáli varðandi gerðir ríkisstjórnarinnar. Því miður er það að renna skyndilega upp fyrir mér að Sjálfstfl. hefur hæstv. heilbrrh. að leiksoppi í þessu máli. Hæstv. heilbrrh. hefur gert sterkar athugasemdir og það var ekki tekið mark á þeim. Þegar hæstv. heilbrrh. kemur síðan og iðkar þá rökleikfimi að halda því fram að hún hafi ekki í höndunum nein gögn sem geti gert það að verkum að hún kunni að taka afstöðu til þess hvort hér sé um hættulegar reglur að ræða eða ekki, þá vísa ég því algerlega á bug. Hún vissi nógu mikið til þess að gera sterkar athugasemdir við reglurnar. Á grundvelli hvers? Einhverra staðreynda, einhverra skýrslna. Hæstv. ráðherra hlýtur að hafa vitað hvað hún var að gera. Hverju var hún að mótmæla? Var hún ekki að mótmæla því að hún taldi að þessar reglur gætu verið skaðlegar?