Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 17:52:26 (488)

1996-10-17 17:52:26# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[17:52]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég undrast alltaf möguleika hæstv. heilbrrh. til þess að lyfta umræðunni upp á verulega hátt plan. En það er svo, herra forseti, að ég veigra mér ekki við því að taka málið til umræðu innan nefndarinnar vegna þess að ég ræð því ekki. Það er einfaldlega svo að mér sýnist að --- jafnvel þó ég vildi það ekki --- þá liggur hér fyrir skýr meiri hluti. En gleymum því ekki að óskin um þetta kom skorinorðust frá hv. varaformanni nefndarinnar og hæstv. heilbrrh. Og hæstv. heilbrrh., í fjórða skipti í dag, óskar eftir því að heilbr.- og trn. taki það til rannsóknar hvort hæstv. fjmrh. hafi orðið það á að brjóta lögin þegar hann setti reglur um innflutning á tóbaksvarningi. (Gripið fram í.) Þetta eru harðar ásakanir sem ég þykist heyra af vörum hæstv. heilbrrh. En þetta verður væntanlega gert og ég ímynda mér að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir muni taka málið sérstaklega upp á næsta fundi nefndarinnar eða milli funda og óska eftir þessu og að sjálfsögðu mun ég verða við því.

En fyrsta gagnið sem ég mun óska eftir að fá til þess að rannsaka málið verður hin skriflega greinargerð heilbrrn. sem send var hæstv. fjmrh. og hann kaus að hunsa.