Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 17:55:15 (490)

1996-10-17 17:55:15# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[17:55]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það hlýtur að vera raun þeim virðulega forseta sem núna stýrir þessum fundi, af því að hann tilheyrir Framsfl., að þetta er í annað skipti sem þingmaður Framsfl. fer undan á hörðum flótta frá eigin ummælum. Hæstv. heilbrrh. kemur hér upp og heldur því fram að hún hafi ekki átt við það að hæstv. fjmrh. hafi farið á svig við lögin með því að setja þessar reglur. Eigi að síður liggur það fyrir að hæstv. heilbrrh. hefur fimm sinnum í dag óskað eftir því að heilbr.- og trn. Alþingis taki til rannsóknar þessar reglur sem hæstv. fjmrh. hefur sett og hún hefur tiltekið hvað nefndin á að rannsaka. Það á að rannsaka hvort það sé nauðsynlegt lögum samkvæmt að auka fjölda þeirra sígarettutegunda sem þurfa að koma á markaðinn. Með öðrum orðum, hæstv. heilbrrh. er ekki viss um að það sé rétt sem hæstv. fjmrh. sagði í dag, að það yrði að gera þetta vegna gildandi laga. Það er ekki hægt að skilja þessi orð öðruvísi en svo að hæstv. heilbrrh. vilji fá hv. heilbr.- og trn. til þess að vega, meta og rannsaka og að lokum kveða upp sinn úrskurð um það hvort hæstv. fjmrh. hafi brotið lögin eða ekki.

(Forseti (GÁ): Forseti vill taka fram vegna orða hv. þm. að forseti er hér einungis að gera skyldu sína.)