Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 17:57:02 (491)

1996-10-17 17:57:02# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., Flm. ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[17:57]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég þakka fyrir mjög gagnlegar og góðar umræður í dag um þetta mál. Það er í raun og veru hægt að tala um tvö mál, þ.e. þáltill. og það mál sem ég hreyfði svo hér í lok máls míns um nýjar reglur um innflutning á tóbaki.

En hvers vegna er ég og mínir samflutningsmenn að flytja tillögu um það að slíta tóbaksverð og vísitölubindinguna í sundur? Ástæðan er einföld. Eins og ég talaði um í upphafi vitum við um skaðsemi tóbaks. Við þurfum ekki fleiri rannsóknir. Við þurfum ekki lengur vitnanna við. Þetta er svona og allt sem kemur fram er verra en við héldum í gær og meira að segja nýjustu tölur og nýjustu upplýsingar sem við fáum. Því miður er það þannig. Þó svo við höfum áttað okkur á því í gegnum árin að það er samband á milli neyslu, magns, tíma og áhættuþátta í að fá krabbamein vegna reykinga, þá er það það nýjasta að alls ekki er sama hvenær fólk byrjar að reykja. Sérstaklega eru stúlkur illa settar ef þær byrja á unglingsárum. Þær eru í mikilli áhættu með að fá lungnakrabbamein þannig að við skulum ekki gera lítið úr vandaum. Eins og ég nefndi áðan, þá hefur komið fram í nýrri könnun tóbaksvarnanefndar að það hefur borið á aukinni tóbaksnotkun, reykingatíðni, og því miður hefur hún frekar verið hjá konum og ungum stúlkum en körlum, enda er þær markhópurinn í dag. Markhópur tóbaksframleiðenda eru konur, ungar stúlkur, fátækt fólk og litað og fólk í þróunarlöndunum.

Fyrir utan tóbakið og nikótínið hefur neysla ólöglegra fíkniefna líka aukist hér á landi og þær fréttir sem við heyrum núna á haustdögum hafa verið fyrir marga eins og reiðarslag, þ.e. að átta sig á þeim fjölda unglinga sem og ungs fólks sem er farið að neyta ólöglegra fíkniefna daglega og komið í það harða neyslu að mjög erfitt er að hjálpa því til bata. Ungt fólk veit um þá áhættu sem það tekur með því að byrja að reykja, með því að fikta við að nota fíkniefni. Það byrjar samt sem áður. Við erum bara komin á það stig að venjuleg fræðsla, hefðbundin fræðsla, auglýsingar í sjónvarpi, fræðsla í skólum, dugar ekki lengur. Eins og landlæknir benti á í morgun í útvarpsviðtali þá er þetta vandi fjölskyldunnar. Þetta er okkar samfélagsvandi. Meinið er miklu stærra en svo að við getum átt við það með forvarnafræðslu og að ætla sér að halda því áfram er í raun og veru blekking og friðun á eigin samvisku.

[18:00]

Ég lýsi eftir samræmdri stefnu heilbrrn. og fjmrn. Hér inni situr hv. þm. Pétur Blöndal sem er töluglöggur maður og hefur bent okkur á, í dag og aðra daga, hvernig eigi að fara vel með fjármuni ríkisins. Ég sé enga heilbrigða skynsemi í því að setja á fjárlög næstkomandi árs 32 millj. til tóbaksvarna og það er ekki einu sinni farið að nota þessa fjármuni þegar öllum grunninum er í raun kippt undan þessu í fjmrn. með því að leyfa aukinn innflutning á tóbaki og fleiri tóbaksvörum. Til hvers? Hvað eigum við að gera? Setja 10 millj. í viðbót? Fara aukaherferð í skólana í haust? Hvað eigum við að gera? Hvað þýðir þetta? Þetta er að fara illa með heilsu fólks og fjármuni. Í hinum iðnvædda heimi er víða verið að taka á tóbaksnotkun m.a. með löggjöf og fleiri þáttum.

Það má líta til Bandaríkjanna í þessum efnum, þjóðar sem hefur verið þekkt fyrir mátt einstaklingsins, einstaklingsfrelsi og fyrir frjáls viðskipti. Þeir hika ekki við að setja svo stranga löggjöf að það má í sumum ríkjum Bandaríkjanna ekki reykja á almannafæri og ekki í opinberum byggingum. Það er sem ég sjái okkur Íslendinga lúta því þó við þykjumst ekki vera eins frjálslynd og Bandaríkjamenn en þetta er nú svona. Þeir gera sér fyllilega grein fyrir vandanum og taka á honum og nota þau ráð sem þeir telja að dugi. Þar eru ríkin mjög mismunandi á vegi stödd en sum að þessu leyti alveg til fyrirmyndar. Enda hefur Clinton, núverandi Bandaríkjaforseti, í sínum undirbúningi fyrir endurkosningu ekki hikað við að taka upp tóbaksvarnamál og berjast fyrir því að skilgreina nikótín á réttan hátt, þ.e. að það falli undir ávanabindandi efni og eiturefni. Þegar það verður búið og frágengið, því nikótín flokkast nákvæmlega eins og heróín og kókaín á þessum sviðum, þá er hægt að taka á vandanum á allt annan hátt en gert er í dag og duga þá ekki nein vettlingatök. Við þurfum kannski bara að bíða eftir og vona að Clinton Bandaríkjaforseti nái endurkjöri svo við höfum meiri möguleika á að breyta okkar löggjöf. Það þarf kannski að koma frá Bandaríkjunum að við förum að breyta okkar reglum um samkeppnislög og fleira til að geta tekið tóbakið þar út úr.

Meðflutningsmaður minn, hv. þm. Svavar Gestsson, nefndi að það gæti verið einhverjum erfiðleikum bundið miðað við þá efnahagsstefnu sem við höfum að taka tóbakið alfarið út úr vísitölunni til frambúðar, þ.e. þegar reiknuð er út lánskjaravísitala. Það væri hægt að fara þá leið sem hann benti á eða ef ég má, með leyfi forseta, vísa í yfirlýsingu aðalbankastjóra seðlabanka Kanada, Gordons G. Thyssen, um stefnu bankans í peningamálum og mat hans á þróun í efnahagsmálum. Þetta er skýrsla sem hann gaf viðskiptabankamálanefnd kanadíska þingsins í mars 1994 og aftur í mars 1995. Hann lagði áherslu að hækkun á neysluvísitölunni vegna óbeinna skatta, eins og á tóbaki, þurfi ekki að hafa í för með sér verðbólgu. Og hann sagði, með leyfi forseta:

,,Sérhver hreyfing á neysluvísitölunni er ekki vísbending um að verðbólga liggi að baki. Til dæmis geta breytingar á óbeinum sköttum lyft vísitölunni upp eða dregið hana niður án þess að setja í gang óhjákvæmilegar breytingar á kostnaði og verði.`` Þ.e. skattbreytingar geta valdið verðbreytingum í byrjun án þess að hafa áhrif á verðbólguþróun og hann telur einnig í yfirlýsingunni frá 1995 að það sem máli skiptir þegar verðbólguþróun er metin sé að skoða neysluvísitöluna á ársgrundvelli án þess að hafa skattbreytingar eins og breytingar á tóbaksskatti með. Þetta er kannski ein leið af mörgum sem væri vert að skoða.

Um hitt málið, það liggur við að ég gæti tekið mér í munn orð eins og aðför að hæstv. heilbrrh. Við eigum orðið nokkuð þokkaleg lög um tóbaksvarnir. Þau urðu a.m.k. mun betri en ég þorði að vona í vor. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá hvað þar var vel tekið á málum barna og unglinga og þeirra varnir styrktar. Þar segir í grein 5.3 að fjmrn. skuli hafa samráð við tóbaksvarnanefnd um stefnumörkun varðandi innflutning og verðlagningu tóbaks. Þetta er margbúið að koma fram í dag. Það að óska eftir áliti tóbaksvarnanefndar á verðandi reglum er ekki samráð. Og það sem kemur fram í áliti tóbaksvarnanefndar sem mælir alfarið á móti þessu og sömuleiðis í bréfi frá heilbrrn. síðar er ekki samráð. Samráð er að koma sér saman um hlutina en ekki senda í skeytaformi á milli manna og guð veit hvort þeir lesa þetta eða hvað er gert með þetta. Alla vega er ekkert gert með álit tóbaksvarnanefndar. Þarna er fjmrn. búið að móta nýja stefnu í tóbaksvörnum og heilbrigðisstefnu Íslands. Þetta brýtur algerlega í bága við nýju tóbaksvarnalögin okkar og við íslenska heilbrigðisstefnu því að við þurfum ekki að skoða fleiri rannsóknir.

Hverjir eiga að reykja þessar nýju tegundir sem koma inn á markaðinn? Hverjir? Þessi 2% sem hugsanlega færu að skipta úr gömlu merkjunum yfir á ný? Það verður ekki þannig. Ég hika ekki við að nefna nöfn eins og Philip Morris. Ég hika ekki við að nefna nöfn eins og Marlboro vegna þess að þeir eru sterkustu aðilarnir á markaðnum. Ég tel það ekki auglýsingu þó að þetta fari út í fjölmiðlana. Þeir eru sterkastir. Ég hef skoðað og fylgst með því hvernig þeir hafa komið sér inn á markaðinn. Það er óhugnanlegt að sjá hvernig þeir koma sér inn á markaðinn í þróunarlöndunum og það skal enginn segja mér að þeir hafi ekki öll ráð til að höfða til unga fólksins því að þetta er merki unga fólksins. Því vil ég gagnrýna vinnubrögð fjmrn. og stjórn ÁTVR við að koma á nýjum reglum við innkaup á tóbaki. Það er verið að vísa til samkeppnisreglna. Hvers vegna í ósköpunum er ekki látið reyna á þær samkeppnisreglur? Þetta ákveðna fyrirtæki var búið að vera í dyragættinni og óska eftir inntöku eða komast inn á markaðinn frá því við gengum í EES. Því ekki að láta reyna á það? Og ég lýsi, eins og fleiri hér í dag, eftir áliti ríkislögmanns um efnið. Ég veit að tóbaksvarnanefnd hefur óskað eftir því áliti sem fjmrn. hefur byggt sína afgreiðslu á og hefur ekki fengið, enda kom það í ljós í dag að það er ekki til. Nýjar reglur var sagt. Annars ættum við hættu á kæru.

Það eru 36 vörumerki á markaðnum í dag. Er ekki einfalt fyrir okkur að segja hreinlega: Við höfum haft reglur mörg undanfarin ár. Við höfum fylgt íslenskri heilbrigðisstefnu. Við ætlum að gera það áfram. Við ætlum að hafa 36 merki í henni áfram. Það er þá hugsanlegt að eitthvað breytist innan þessara 36 merkja en við ætlum ekki að fjölga þeim. Þetta gera lönd víðs vegar í kringum okkur og eitt af markmiðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og Evrópusambandsins er að draga úr framboði tóbaks. Mér finnst það molbúaháttur af okkur að láta undan þessum þrýstingi. Alla vega eigum við ekki að gera það nema við séum nauðbeygð til þess og knúin til þess en þá þarf líka einhver að sýna mér að við þurfum að gera það. Og ef við þurfum að breyta samkeppnisreglunum til þess að standa á þeirri ákvörðun okkar að draga úr tóbaksneyslu, þá gerum við það.

Undirbúningurinn að breytingum á þessum reglum hefur farið hljótt og hann hefur komið aftan að mörgum. Reglurnar hafa alveg verið frágengnar án nokkurrar kynningar eða samráðs við lögboðna aðila. Þannig var hægt að koma á nýjum reglum án afskipta frá ýmsum aðilum sem hefðu e.t.v. verið óþægilegir og komið þessu í uppnám. Hugsanlega hefði heilbrn. Alþingis getað frétt af þessu ef þetta hefði ekki farið svona hægt og hljótt. En gæti skýringin verið sú að litið sé á breytingarnar sem viðskiptalegs eðlis eingöngu og allt sé svo lokað inni í fjmrn. að það sjái ekki nema sinn fjármálaheim og geti ekki litið á þessar tillögur nema út frá viðskiptalegum hagsmunum? Þetta er heilbrigðismál, þetta er forvarnamál, þetta er tóbaksvarnamál og því ber okkur að fara með það þannig. (Forseti hringir.)

Ég biðst afsökunar, herra forseti. Í upphafi máls míns vísaði ég tillögunni til heilbr.- og trn. þar sem ég tel eðli málsins vera heilbrigðismál en ég get tekið undir álit þeirra sem hafa komið hér í dag og talið að hún ætti líka að fara til efh.- og viðskn.