Aðlögun að lífrænum landbúnaði

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 18:13:16 (492)

1996-10-17 18:13:16# 121. lþ. 10.12 fundur 83. mál: #A aðlögun að lífrænum landbúnaði# þál., Flm. ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[18:13]

Flm. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þál., um aðlögun að lífrænum landbúnaði. Hún er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að undirbúa viðeigandi breytingar á landbúnaðarlöggjöfinni til þess að unnt sé að styðja bændur sem aðlaga búskap sinn viðurkenndum lífrænum búskaparháttum í samræmi við lög nr. 162/1994 og reglugerð nr. 219/1995, um lífræna landbúnaðarframleiðslu.``

Greinargerðin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Búvöruframleiðsla sem byggist á lífrænni ræktun er í örum vexti í mörgum löndum. Víðast hvar er skortur á lífrænt vottuðum vörum enda markaðseftirspurn vaxandi. Á Norðurlöndum og víðar er efling lífræns búskapar liður í landbúnaðarstefnunni, t.d. að 10--20% búvöruframleiðslunnar verði vottuð lífræn fyrir aldamót. Slíkt er í anda þeirrar stefnu að efla beri sjálfbæra þróun enda mun meiri kröfur gerðar til umhverfis- og búfjárverndar í lífrænum búskap en í þeim hefðbundna. Bændur, sem vilja taka upp viðurkennda lífræna búskaparhætti, geta fengið sérstaka aðlögunarstyrki í Danmörku, Noregi, Finnlandi, Svíþjóð, Bretlandi, Austurríki, Þýskalandi, Sviss og víðar. Verið er hverfa frá framleiðslutengdum stuðningi til umhverfistengds stuðnings við landbúnað og er aðlögunarstyrkur við lífrænan búskap veigamikill liður í þeirri þróun. Þar með er viðurkennt að bændur sem stunda lífrænan búskap séu að taka á sig mun stærri hluta umhverfiskostnaðar en þeir sem stunda efna- og lyfjavæddan búskap er veldur sums staðar mengun og öðrum vandamálum. Bóndi, sem fer út í lífræna ræktun, þarf að kosta töluverðu til endurræktunar, breyta gripahúsum, aðlaga vélakost og standa straum af eftirlits- og vottunarkostnaði, en vottun er neytendum trygging fyrir því að varan sé framleidd og unnin samkvæmt reglum og stöðlum fyrir lífrænan landbúnað.

Nú er unnið að gerð skýrslu í samræmi við ályktun frá búnaðarþingi 1996 (mál nr. 42, þingskjal nr. 81) þar sem lagðar verða fram tillögur um stuðning við aðlögun að lífrænum búskap. Í lögum um lífræna landbúnaðarframleiðslu, nr. 162/1994, er ekki heimild til að veita slíkan stuðning og ljóst er að lög nr. 27/1995, um átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistrænna og lífrænna afurða, varða ekki beinan stuðning til einstakra bænda sem hyggjast framleiða lífrænar afurðir með búháttabreytingu sem felur í sér verulega aðlögun samkvæmt lögum nr. 162/1994. Því þarf að marka aðlögunarstuðningi við lífrænan búskap ákveðinn bás í landbúnaðarlöggjöfinni og mætti í því sambandi einnig nefna lög um búfjárrækt, nr. 84/1989, og jarðræktarlög, nr. 56/1987, en þau eru nú í endurskoðun. Þess ber að geta að í aðlögun að lífrænum búskap gæti falist stuðningur við landgræðslu og skógrækt og þá sérstaklega skjólbeltarækt sem verður að teljast nauðsynlegur liður lífrænnar ræktunar víða um land. Þá má tengja aðlögunarstyrkjum ákveðin skilyrði um náttúruvernd, svo sem verndun votlendis og viðhald erfðafjölbreytni dýra og plantna.``

Herra forseti. Ástæðan fyrir þessari tillögu þykir mér vera nokkuð ljós. Bændur sem fara út í lífræna ræktun í dag eða lífrænan landbúnað falla ekki að því landbúnaðarkerfi sem við nú búum við. Þeir eiga ekki rétt á búháttastyrkjum því að þeir eru í sjálfu sér ekki að breyta um stofn. Þeir eru með sama stofn áfram, sauðfjárrækt, mjólkurframleiðslu eða í hverju sem þeir eru. En það eru ræktunaraðferðirnar sem þeir breyta og það er einmitt nýja ræktunaraðferðin sem bæði kostar meiri vinnu og meira fjármagn, sérstaklega í upphafi breytinganna. Það má hugsanlega tala um tvö ár, þrjú ár. Ég ætla ekki að leggja mat á það. En það er ekki verið að tala um árlegan stuðning til þeirra bænda sem breyta um og fara yfir í lífrænan landbúnað. Víða fá bændur sem stunda lífrænan landbúnað, árlega styrki og því má í þessu sambandi líta til þess hvort íslenskir bændur í lífrænni ræktun verði samkeppnisfærir við marga þá sem fá svo opinbera styrki til framleiðslunnar. Það er ekki það sem felst í þessari þáltill. en yrði skoðað alveg sérstaklega ef út í það yrði farið.

Kostnaðurinn við búháttabreytingarnar felst aðallega í landræktun, þ.e. að breyta um áburðargjöf. Það er eitthvað varðandi breytingar á fjárhúsum eða húsakosti. Hann getur verið lítill, allt upp í það að vera umtalsverður en það er líka breytingum háð. Eins hefur þetta vottunarkerfi sem bændur ganga inn í verið aukakostnaður fyrir þá sem er ekki hjá öðrum. En það er aðallega ræktunarkostnaðurinn sem þarf að taka tillit til.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en vil benda á að Gísli S. Einarsson mun mæla síðar fyrir till. til þál. um áætlun til lífræns landbúnaðar. Í sjálfu sér fara þessar þingsályktunartillögur ágætlega saman. Þær tengjast nýjum áherslum í landbúnaði þó að þær fjalli ekki um það sama. Greinargerð hans fylgja líka fylgiskjöl sem ég vil benda þingmönnum á að lesa vel þegar þeir fara yfir þáltill. hans því að þar er mjög fróðlegt erindi lagt fram og ég veit að margir verða þess vísari hvað lífræn landbúnaður er eftir að hafa lesið þau fylgiskjöl.