Hraðamælar í bifreiðum

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 15:23:15 (508)

1996-10-28 15:23:15# 121. lþ. 11.2 fundur 49#B hraðamælar í bifreiðum# (óundirbúin fsp.), HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[15:23]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. dómsmrh., svohljóðandi: Hversu áreiðanlegir eru hraðamælar í bifreiðum landsmanna? Ég hef rökstuddar grunsemdir fyrir því að hraðamælar, einkum nýrra bíla, séu ónákvæmir og hafi farið meira í þá áttina að verða ónákvæmari með árunum. Þeir séu látnir sýna hærri tölu heldur en raunverulegum hraða nemur. Lögreglumenn hafa fullyrt við mig í samtölum að mismunurinn geti verið 6--10% --- alltaf á sama veginn að hraðamælarnir sýni meiri hraða heldur en raunveruleikinn er. Ekki sé um að ræða spurningar um dekkjastærð heldur það að með þessu móti geti framleiðendur bifreiða gefið upp minni bensíneyðslu og bílarnir séu fljótari upp í 100 km hraða sem við förum auðvitað aldrei upp í, herra forseti. Ég spyr því hæstv. ráðherra um það, hvort honum sé kunnugt um þetta og hvort einhver athugun hafi verið gerð á þessu máli?