Einbreiðar brýr

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 15:27:36 (512)

1996-10-28 15:27:36# 121. lþ. 11.2 fundur 50#B einbreiðar brýr# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[15:27]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Varðandi hið síðasta þá hygg ég að það sé þingmanna Suðurlandskjördæmis að ráða fram úr því hvort þeir telji rétt að verja einhverju af vegafé til að lýsa upp brúna yfir Þjórsá og komi ekki undir gerð samgrh. eins og vinnubrögðum hefur verið háttað. Á hinn bóginn höfum við sýnt því áhuga í samgrn. og Vegagerð, og raunar hefur það komið fram á Alþingi líka, að reyna að flýta því að breikka brýr þar sem reynslan hefur sýnt okkur að um slysagildrur er að ræða. Það er rétt hjá hv. þm. að Þjórsárbrúin er ein af þeim brúm þar sem slys eru tíð. Ef ég man rétt hafa flest slys orðið á brúnni yfir Botnsá í Hvalfirði, síðan kemur Þjórsá og síðan kemur brúin yfir Laxá í Kjós --- eins og ég man það. Það hefur verið rætt milli mín og vegamálastjóra hvort hægt sé að flýta því að byggð verði brú yfir Þjórsá fram yfir það sem áður hafði verið áætlað.