Veiðileyfagjald

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 15:33:56 (515)

1996-10-28 15:33:56# 121. lþ. 11.8 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[15:33]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Nú verður fram haldið umræðu um veiðileyfagjald sem hefur verið frestað í tvígang. Það var ósk okkar flutningsmanna, herra forseti, að hæstv. forsrh. yrði viðstaddur þessa umræðu og málinu var frestað nú síðast vegna þess að hann gat ekki verið til loka þeirrar umræðu og þá frestaði forseti eðlilega umræðunni. Ég vil spyrjast fyrir um, hvort hæstv. forsrh. sé ekki nálægur.

(Forseti (ÓE): Hann er hér.)

Vissulega eins og um var rætt.

Þessar umræður hafa verið nokkuð ítarlegar og góðar hér á hinu háa Alþingi. Eins og skýrt hefur komið fram í umræðunni snýst tillagan um þá pólitísku ákvörðun hvort beri að taka upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi eins og við jafnaðarmenn leggjum til. Við höfum ítrekað bent á það að umræðan um veiðileyfagjald getur verið óháð fiskveiðistjórnunarkerfinu. Það hafa fjölmargir aðilar hafið umræðu um fiskveiðistjórnunarkerfið sem slíkt, fundið því ýmislegt til foráttu eins og alvanalegt er og einkum bent á framsal í núverandi kerfi máli sínu til stuðnings. Samt ber að ítreka það að tillagan er ekki um fiskveiðistjórnunarkerfið. Hún fjallar um spurninguna um veiðileyfagjald. Vitaskuld geta menn verið með umræðuna á breiðum vettvangi eins og ýmsir hv. þingmenn hafa gert, en það er alls ekki nauðsynlegt. Þannig er hægt að vera með veiðileyfagjald í núverandi aflamarkskerfi. Það er einnig hægt að vera með veiðileyfagjald í sóknarmarkskerfi ef menn kjósa það. Það er ekki spurningin sem við erum að fjalla um hér. Þetta er álíka og ef flutt er tillaga um breytingu á tekju- og eignarskatti að menn vildu þá taka alla tekjuskattslöggjöfina til umræðu. Hins vegar er þetta mál þess eðlis að ég geri enga athugasemd við það að menn ræði það á breiðum grundvelli, en ég bið menn hins vegar um að taka tillöguna eins og hún er borin fram, þ.e. án tengsla við breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Meginrök okkar flutningsmanna eru réttlætisrök fyrst og fremst. Hér er um sameign þjóðarinnar að ræða og það að leggja á veiðileyfagjald staðfestir þessa sameign þjóðarinnar því að þegar menn fá úthlutað tímabundið og greiða leigu fyrir er vitaskuld ekki um eign þeirra að ræða, enda það hafið yfir allan vafa.

Einnig misbýður það réttlætiskennd fjölmargra landsmanna að veiðileyfum sé úthlutað án gjaldtöku og síðan geti menn fénýtt veiðileyfi með sölu innan árs eða til lengri tíma án þess að nokkur greiðsla komi fyrir til eigandans, þ.e. almennings. Þessi rök eru mjög veigamikil í allri þessari umræðu og í sjálfu sér alveg nægjanleg til að taka upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi, þ.e. greiðslu fyrir sameiginlegar náttúruauðlindir. Ég vil nefna það, af því að það hefur verið í fréttum núna undanfarna daga, að Bandaríkjamenn hafa tekið upp veiðileyfagjald hjá sér sem er ákveðin prósenta af aflaverðmæti, 3%, og rennur fyrst og fremst til greiðslu á kostnaði við sjávarútveg þar. Þar er sagt: Þetta er fyrsta skref í áttina að því taka gjald fyrir náttúruauðlindir og það er nákvæmlega það sem við erum að tala um varðandi veiðileyfagjald. Hér er verið að taka gjald fyrir sameiginlegar auðlindir okkar landsmanna.

Fyrir utan þessi réttlætisrök sem duga fyllilega til að styðja málið, þá er til viðbótar hægt að benda á hin efnahagslegu rök sem felast fyrst og fremst í því að við getum búist við, til allrar hamingju, að á næstu árum muni fiskveiðiarður, þ.e. hagnaður í sjávarútvegi, vaxa smátt og smátt. Hann hefur gert það á undanförnum árum. Ýmsir fiskstofnar okkar hafa verið að braggast og það er ýmislegt sem bendir til að frekari hagræðing í útgerðarháttum muni halda áfram. Þetta leiðir eðli málsins samkvæmt til uppsveiflu í sjávarútvegi sem er vitaskuld af hinu góða að öðru jöfnu. Þessi uppsveifla getur hins vegar haft neikvæð áhrif á aðra atvinnuvegi, þ.e. með hækkandi raungengi getur skapast verri staða fyrir samkeppnisiðnað og annan útflutningsiðnað. Það er enginn að tala um og enginn flutningsmanna þessarar tillögu hefur talað um að taka allan fiskveiðiarðinn út úr sjávarútvegi, það er fráleitt. Við höfum lagt á það þunga áherslu að fiskveiðiarðurinn er ekki mjög mikill um þessar mundir. Hann er e.t.v. nokkrir milljarðar, talinn vera innan við 5 milljarðar en það er jafnframt talið að þegar bæði fiskstofnar og sókn hefur enn batnað, þá geti þessi fiskveiðiarður numið umtalsverðum fjárhæðum. Og þá hefur öll umræðan gengið út á það að hluti af þessum fiskveiðiarði sé skipulega tekinn út úr greininni en þó skilið mun meira eftir innan greinarinnar heldur en er í núverandi stöðu.

Vitaskuld verða menn einnig að hugsa út frá því að við búum við ákveðið fiskveiðistjórnunarkerfi því að það hefur ekkert komið fram af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, sem fara með meiri hluta hér, um að breyta þessu kerfi í neinum grundvallaratriðum. Annar stjórnarflokkurinn, Sjálfstfl., hefur beinlínis gert um það samþykkt að ekki skuli gerðar breytingar á þessu kerfi í bráð. Hinn stjórnarflokkurinn er sá aðili sem tengdist einna mest þróun þessa kerfis upprunalega. Þá verða menn, án þess að ég ætli að blanda sjálfu fiskveiðistjórnunarkerfinu í þessa umræðu, að svara þeirri spurningu: Vilja menn hafa þetta kerfi eins og það er núna með veiðileyfagjaldi eða án veiðileyfagjalds? Og ég held ef menn fara yfir réttlætisröksemdina og hina efnahagslegu, þá sé augljóst að það er skynsamlegt að feta sig áfram á þessari braut.

Það er sömuleiðis mjög brýnt í hugum okkar flutningsmanna að verði lagt á veiðileyfagjald. Ef það er aðeins lagt á til að mæta kostnaði í sjávarútvegi, þá er ekki um að ræða hefðbundna skatta en látum það vera. Aðrir skattar verða lækkaðir ef menn fara veiðileyfagjaldsleiðina. Tækifærið verður ekki notað til að hækka skatta hér á landi. Við höfum dregið fram í umræðuna tekjuskatta einstaklinga sem renna til ríkisins. Það gæti verið sá skattstofn sem við ættum að stefna að að lækka á næstu árum.

Það sem er hins vegar athyglisvert í þessari umræðu og verður að draga skýrt fram er að við erum með allt annað efnahagsumhverfi núna 1996 heldur en við vorum með fyrir 1990. Umræðan um veiðileyfagjald, hin efnahagslegu rök fyrir veiðileyfagjaldi, snýst um að varðveita þann stöðugleika sem við náðum fyrir sex árum og búa til efnahagsstjórnun sem gerir það að verkum að aðrir atvinnuvegir geti blómstrað við hlið hins sterka sjávarútvegs án þess að við föllum inn í verðbólguþenslu og gengisbreytingar eins og við þekktum á árunum fyrir 1990. Það er ekki rætt um í okkar tillögu að fella gengið. Það er rætt um í þessari tillögu að við séum að vinna gegn raungengishækkun, líklega óhjákvæmilegri raungengishækkun íslensku krónunnar. Það er óskynsamlegt við þessar aðstæður sem við búum við núna, þ.e. lágt raungengi, að vera að hugleiða gengisfellingu í tengslum við þessa umræðu.

Hins vegar er mjög athyglisvert varðandi umræðuna núna og knýr á um svör og þá kemur eiginlega að þætti hæstv. forsrh. og ástæðuna fyrir því að við höfum óskað eftir því að hæstv. forsrh. sé viðstaddur þessa umræðu. Það er tvennt sem veldur því. Annars vegar að í tillögunni er gert ráð fyrir forgöngu forsrh. í sambandi við nefndarskipun sem á að kanna hvaða form veiðileyfagjalds er heppilegast. Einnig lítum við svo á að veiðileyfagjald snerti það marga þætti efnahagsmála, að eðlilegt sé að forsrh., sem hefur helst umsjón með efnahagsmálum, komi að þessu máli í umræðu og útfærslu.

Nú hefur hæstv. forsrh. ekki tjáð sig um veiðileyfagjald á hinu háa Alþingi svo ég muni eftir. Hins vegar hafði hann orð um þetta í upphafi landsfundar flokks síns fyrir nokkrum vikum þar sem hann sagði að þessi tillaga jafnaðarmanna kallaði á 30--50% gengisfellingu og hér væri um að ræða skattlagningu upp á 30--40 milljarða. Ég sagði þá opinberlega, þegar ég var beðinn um álit á þessum ummælum og vil endurtaka það hér á hinu háa Alþingi, að annaðhvort vissi hæstv. forsrh. ekki um hvað umræðan um veiðileyfagjald snerist eða hann færi vísvitandi með ósannindi. Ég vil endurtaka þessi orð hér.

Hæstv. forsrh. hefur vitaskuld núna á hinu háa Alþingi full tök á að taka þátt í þessari umræðu þó hann hafi ekki haft tækifæri til þess enn þá og útskýra sína stöðu í málinu því að hann fór með staðlausa stafi þegar hann sagði að við værum að tala um skattlagningu upp á 30--40 milljarða eða gengisfellingu upp á 30--50%. Svo er ekki. Ég endurtek: Við erum ekki að leggja til gengisbreytingar samhliða veiðileyfagjaldi. Við erum að leggja áherslu á, drögum fram sérstaklega réttlætisrökin í þessu máli og við ræðum líka efnahagsleg rök í því máli gagnvart öðrum atvinnuvegum. Og það að skattleggja um 30--40 milljarða er fráleitt. Við höfum bent á það að fiskveiðiarðurinn getur að mati vísindamanna, við rekjum þetta ítarlega í okkar tillögu, hugsanlega numið 15--30 milljörðum. Við höfum meira að segja gert tillögu um það að ef kjörstaða sé komin, sem er ekki til staðar neitt núna og við eigum sjálfsagt nokkuð mörg ár í hana, þá gæti legið vel við að fella niður á móti þessu tekjuskatt eða leggja á veiðileyfagjald sem næmi t.d. tekjuskatti einstaklinga til ríkisins sem er eitthvað um 15--16 milljarðar. Það er hins vegar framtíðarsýn ef hægt er að ná þessu á nokkrum árum. Ég veit ekki hvort svo er. Okkar tillögur um veiðileyfagjald frá því í haust voru upp á 500--700 millj. Hæstv. fjmrh. hefur sjálfur rætt um að það væri e.t.v. eðlilegt að miða við þann kostnað sem hið opinbera verður fyrir vegna sjávarútvegs, 2--3 milljarða, sem við að hluta til gerum þegar með gjaldi í Þróunarsjóðinn. Við höfum þegar tekið upp veiðileyfagjald að hluta varðandi það gjald sem rennur núna í sjávarútveginn.

[15:45]

Hins vegar verður hæstv. forsrh. að skýra málið á hinu háa Alþingi því að hann viðhafði þau orð á sínum landsfundi að þetta hefði verið sú vitlausasta umræða sem hann hefði heyrt lengi. Ég ætla ekkert að mótmæla mati hæstv. forsrh. á umræðu. Hann stendur við það og rökstyður það. Hins vegar er þá rétt að menn taki þátt í málefnalegri umræðu um efnið. Ég sé að báðir hæstv. ráðherrar eru viðstaddir. Hæstv. sjútvrh. hafði ekki tækifæri á að vera við síðast þegar við ræddum málið en ég geri fastlega ráð fyrir því að þessir forustumenn Sjálfstfl. komi hér upp á hinu háa Alþingi, skýri sitt sjónarmið, segi af hverju þeir vilja ekki fallast á þessa hugmyndafræði sem við jafnaðarmenn leggjum til.

Ég held að það sé mjög brýnt vegna þess að ekki höfðum við, sem vorum þess ekki aðnjótandi að sitja landsfund Sjálfstfl., á tilfinningunni að það hefði átt sér stað mjög ítarleg umræða um þetta mál nema í tiltölulega þröngum hóp. Það virtist vera eins og menn hefðu gefið ákveðna línu varðandi umræðuefnið þar áður en hin raunverulegu fundastörf hófust. Það er í sjálfu sér hlutur sem kemur mér ekki nokkurn skapaðan hlut við. Sjálfstfl. getur haft sína landsfundi nákvæmlega eins og hann vill og formaður þess flokks getur stýrt honum og á að gera eins og hann telur vera best. Það er ekki mitt að gefa neina einkunn eða hafa skoðun á því.

Ég ætlast hins vegar til í svo brýnu máli, sem hér er á ferðinni, að menn komi hér og rökstyðji mál sitt málefnalega. Við erum ekki að biðja um neitt annað, við sem höfum talað fyrir þessari hugmyndafræði. Við teljum að rök hafi verið færð fyrir málinu og eins og í öllum málum eru rök með máli og rök á móti. Ég tel að einmitt ummæli hæstv. forsrh. í upphafi landsfundar Sjálfstfl. hafi síður en svo verið málefnaleg og að hann skuldi hv. Alþingi nánari skýringar og útskýringar á þeirri stefnu Sjálfstfl. að vilja ekki breyta stafkrók í átt til veiðileyfagjalds eins og við höfum verið að lýsa.

Það er mjög brýnt að hugsa þá hugsun til enda ef veiðileyfagjald verður ekki tekið upp hérlendis. Það er ástæða til að óttast að þau áhrif af uppsveiflu í sjávarútvegi, og menn verða að hugsa til framtíðar, að hún muni hafa neikvæð áhrif á annað atvinnulíf þegar lengra líður fram. Það getur sett þennan stöðugleika í hættu. Það er hin efnahagslega sýn sem menn verða að hafa í umræðunni. Vitaskuld, eins og ég nefndi áðan, voru réttlætisrökin þjóðareignin og það að menn geti verslað með eignir annarra alveg fullkomlega nægileg rök fyrir þessari aðferðafræði. En efnahagsleg rök fyrir upptöku veiðileyfagjalds með eða án breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu eru sterk án tillits til fiskveiðistjórnunarkerfisins. Við höfum lagt fram spurninguna þannig að menn taki pólitíska afstöðu með eða móti veiðileyfagjaldi. Við teljum það vera brýnt vegna réttlætissjónarmiða að þessi hugsun nái fram að ganga og einnig vegna efnahagslegra aðstæðna. Til lengri tíma mun veiðileyfagjald styrkja atvinnulíf og ekki hvað síst íslenskan sjávarútveg.