Veiðileyfagjald

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 16:58:56 (533)

1996-10-28 16:58:56# 121. lþ. 11.8 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[16:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu hárrétt að það er hægt að ræða fræðilega um annars vegar veiðileyfagjald, auðlindaskatt og annað því um líkt og hins vegar um stjórnkerfi fiskveiða. En því vill þetta blandast saman m.a. að ein meginröksemdin sem hefur verið notuð til þess að selja mönnum hugmyndir um veiðileyfagjöld er óánægja með ákveðna þætti í núverandi stjórnkerfi fiskveiða. Það er gert út á þau mið svo maður taki líkingu sem vonandi skilst. Það er gert út á óánægjuna með leigubraskið með kvótann þegar menn eru að reyna að selja mönnum hugmyndina um veiðileyfagjald. Svo lengi sem aðrir gera það ekki og halda þessu á fræðilegum og aðskildum forsendum er ég líka til í það.

Um efnahagslegu rökin og sveiflujöfnunina, þá er það hlutur sem ég held að menn ættu líka að ræða algerlega sjálfstætt og ég er svo sannarlega til í þá umræðu. Ég tel ástæðu til þess að fara vel yfir það. Er ástæða til aðgerða nú eða á komandi missirum eða árum vegna þess að það sé að skapast aftur ójafnvægi og misgengi milli atvinnugreina. En þá vill svo sérkennilega til, inn í þetta samhengi um auðlindagjald, að nú er raungengið mjög lágt. Það er nálægt sögulegu lágmarki. Í öðru lagi blómstra ýmsar greinar útflutningsiðnaðar og þjónustustarfsemi, ferðaþjónusta og margar greinar útflutningsiðnaðar blómstra.

[17:00]

En hvar eru mestu erfiðleikarnir í dag? Þeir eru í landvinnslu sjávarútvegs. Þar eru ljótustu taptölur sem við sjáum með öllum fyrirvörum á því, meðaltölum o.s.frv. (Gripið fram í: Og af hverju?) Eru þetta þá rök fyrir auðlindaskatti á sjávarútveginn í dag á efnahagslegum grunni? Svarið er nei. Í raun og veru má segja ef menn vilja fara í orðaleiki, að það sé öfugt, að landvinnslan, frystingin, þurfi nú auðlindaskatt á iðnaðinn til þess að jafna metin. Það er nú þannig. Við skulum þá líka átta okkur á því umhverfi sem við erum að tala um í þessu samhengi.

Ég er svo að síðustu að sjálfsögðu tilbúinn til viðræðna og umræðna um breytingar á stjórnkerfi fiskveiða og það hvort einhvers konar auðlindagjaldtaka eigi að vera þar með í farteskinu, enda sé þá um að ræða almenna kerfisbreytingu og skattapólitíska ákvörðun sem tengist öllum atvinnugreinum jafnt. Það sem mér líkar ekki er þessi umræða sem beinist að einni grein. Sértækur, sérgreindur skattur á sjávarútveginn og þar með landsbyggðina er ekki sanngjarn. Hann er ekki réttlátur og hann er ekki skynsamlegur.