Veiðileyfagjald

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 17:03:40 (535)

1996-10-28 17:03:40# 121. lþ. 11.8 fundur 3. mál: #A veiðileyfagjald# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:03]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Við erum greinilega sammála um þessar efnahagslegu forsendur. Það er lágt raungengi og það er góð afkoma í útflutnings- og samkeppnisgreinum. Hvað er þá að? Ég spyr: Hver eru þá rökin? Er þetta þá ekki akkúrat eins og þetta á að vera? Hvers vegna þá að prjóna upp sérstaklega efnahagsleg rök fyrir auðlindaskatti?

Fljótt á litið lítur það svo út, þegar farið er yfir söguna undanfarna 2--3 áratugi, að þetta sé að nokkru leyti rétt, þ.e. að sjávarútvegurinn hafi verið svo sterkur að aðrar greinar hafi goldið sambýlisins við hann. En þegar betur er að gáð vakna ýmsar spurningar. Þoldi sjávarútvegurinn í raun nokkuð frekar raungengisstigið og samkeppnisskilyrðin en hinar greinarnar? Munurinn var bara sá að honum varð að bjarga. Þá var samstaða um það og það voru endurteknar reddingar og skuldbreytingar og lánalengingar og alls konar vesen. Og hvernig standa menn svo að málum þegar upp er staðið eftir þessa áratugi? Sjávarútvegurinn er með 110 milljarða skuldir á bakinu þannig að ég spyr mig æ oftar að því: Er þessi kenning ekki öll sömul rugl? Er það ekki þannig að í raun og veru hefur sjávarútvegurinn barist harðri baráttu og gerir svo enn. Og það er merkilegt að það er talað mikið um hagnað í sjávarútvegi og fjárfestingar erlendis. En hvað með aðrar atvinnugreinar? Skiptir þá ekki máli hvernig þær hafa það og hvert þær fara með peningana? Hvers vegna er sjávarútvegurinn einn og sérstaklega svona undir smásjánni? Gleymum því ekki að þessi grein býr við þá sérstöðu að hún keppir við ríkisstyrktar atvinnugreinar nágrannalandanna, t.d. við fiskvinnslu á meginlandi Evrópu sem fær upp undir 40% af fjárfestingum í beinum styrkjum. Þetta ætlum við okkar sjávarútvegi að keppa við. Er þá svarið af okkar hálfu að leggja til viðbótar á hann sértækan skatt? Mér finnst það mjög sérkennilegt. Er það ekki upp úr sjávarútveginum sem við ætlum að uppskera áframhaldandi verðmætasköpun, fullvinnslu og þróun og sókn inn á markaði? Fyrir hvaða peninga ef hann má ekki hagnast, ef það á að taka arðinn út úr greininni?

Ég held að það eigi mikið vatn eftir að renna til sjávar áður en svo mikill gróði í íslenskum sjávarútvegi verður þar saman safnaður sem ekki finnur sér farveg í nýjar og þarfar fjárfestingar, í ný störf, í endurnýjun flotans og í annað sem er brýnt og bíður, að við förum að hafa áhyggjur af því sérstaklega. Ég vona að sú stund sé fram undan að þvílíkur gróði verði í þessari grein að það verði praktískt og tímabært að hefja umræður um það hvort á hann þurfi að leggja sérstakan skatt, en það er því miður alllangt í land.