Þingsköp Alþingis

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 17:24:13 (539)

1996-10-28 17:24:13# 121. lþ. 11.9 fundur 21. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., StB
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:24]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um þingsköp Alþingis og vil ég af því tilefni segja nokkur orð.

Ég vil byrja á að þakka hv. flutningsmönnum fyrir að flytja hér slíkt frv. þó að ekki séu miklar líkur á að það verði afgreitt á þessu þingi, svo viðamikil breyting sem fylgir því. Engu að síður tel ég mjög gagnlegt að nokkur umræða fari fram um þingsköp Alþingis og hvernig staðið skuli að störfum í þinginu. Þó eru nokkur atriði sem fram koma í frv. einkum og sér í lagi í grg. með frv. sem ég vildi vekja athygli á og get ekki fallist á. Meginatriði frv. er, eins og segir í 1. gr.:

,,Heimilt er nefnd að eigin frumkvæði að fjalla um og rannsaka önnur mál en þau sem þingið vísar til hennar, svo sem um framkvæmd laga, meðferð opinberra fjármuna og önnur mikilvæg mál er almenning varða.``

Um þetta er allt gott og blessað að segja en ég verð að viðurkenna að ég tel að ekki sé skynsamlegt koma á einhverjum sérstökum rannsóknarrétti á vegum þingnefnda þó að það sé auðvitað mjög mikilvægt að þingnefndir taki ítarlega til umfjöllunar þau mál sem til þeirra er beint auk þess sem auðvitað er hægt að taka upp tiltekið mál í þingnefndum. Ég get sem sagt ekki fallist á það sjónarmið sem hér kemur fram. Mér finnst vera inntak frv. að sérstök rannsókn fari fram á vegum þingnefnda og að sérstöku frumkvæði þeirra eins og gerist t.d. í Bandaríkjunum. En í greinargerðinni segir, og það hefur orðið m.a. tilefni til nokkurrar umræðu í fjölmiðlum og ég vænti utan þingsins, með leyfi forseta:

,,Á undanförnum árum hafa hins vegar komið berlega í ljós veikleikar löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu þar sem Alþingi er að verða æ meira framkvæmdarvaldsþing.``

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég get alls ekki tekið undir það sem hér segir. Það kann vel að vera að sú sé reynsla fyrrum ráðherra sem eru flutningsmenn þessa frv. að svo sé. Ég get ekki viðurkennt það þó að við stjórnarliðar göngum vasklega fram t.d. í því að fylgja fram málum ríkisstjórnarinnar, að það þurfi að þýða að þingið fjalli ekki fullkomlega eðlilega um mál. En nú um stundir er tiltölulega stór þingmeirihluti fyrir þeim sjónarmiðum sem koma fram í frumvörpum ríkisstjórnarinnar, stjórnarfrumvörpum, þannig að það má segja að starfið í þinginu beri þess nokkur merki. Ég tel að það sé af og frá og í fyllsta máta óviðeigandi að halda því fram að Alþingi sé einhver sjálfvirk afgreiðslustofnun fyrir hvað eina sem kemur fram frá framkvæmdarvaldinu og get því alls ekki tekið undir þau sjónarmið sem koma fram í grg. með frv. hvað þetta varðar.

Annað sem ég rak augun í sérstaklega. Mér finnst nokkuð sérkennilegt þegar talað er um að stjórnarfrumvörp séu að stærstum hluta samin af embættismönnum. Auðvitað eru stjórnarfrumvörp samin af einhverjum, handverksmönnum, skulum við segja í gerð frumvarpa. Venjulega er það að undangenginni töluvert mikilli vinnu, stundum á vegum nefnda, sem settar eru á laggirnar til að undirbúa mál, og síðan er embættismönnum falið að koma saman texta og ganga frá gerð frumvarpa. Ég fæ því ekki séð hvernig hlutirnir geti verið í rauninni öðruvísi en embættismenn komi að samningu frumvarpa.

[17:30]

Ég hef hins vegar haldið því fram að embættismenn ráðuneyta sérstaklega geti auðvitað haft geysilega mikil áhrif ef þeir beita sér, m.a. geta þeir haft mikil áhrif með því vinna vel fyrir sína ráðherra og ég held að áhrif embættismanna séu í rauninni miklu meiri á störf ráðherra en nokkru sinni á störf þingsins þannig að margar hliðar eru á þessu máli. Ég get ekki séð fyrir mér að í rauninni sé mögulegt að þingmenn skrifi nánast allan texta sem afgreiddur er í þinginu. Þannig eru vinnubrögð ekki sem betur fer og við þingmenn fáum góðan stuðning frá embættismönnum þingsins og starfsmönnum þingsins sem hefur verið að breytast mjög mikið. Ég get talað fyrir mig að þann stutta tíma sem ég hef setið á þingi, frá 1991, hefur orðið geysilega mikil breyting á þeirri aðstöðu sem er fyrir þingmenn og hjá þingmönnum við hvers konar vinnu. Við höfum á að skipa mjög hæfu starfsliði í þinginu sem m.a. getur aðstoðað við samningu frumvarpa og auðvitað vinnur við undirbúning að nefndarálitum með þingmönnum og fyrir þingmenn þannig að ég tel að að því leyti sé þetta allt í hinu eðlilegasta horfi. En aðalatriðið er að þingmenn leggi áherslu á hinar pólitísku línur sem þeir vilja leggja í gegnum samþykkt löggjafar og með samþykkt löggjafar. Það er okkar skylda og það er á okkar ábyrgð það sem samþykkt er á hinu háa Alþingi.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég nefna það sérstaklega sem fram kom hjá hv. 14. þm. Reykv., Kristínu Ástgeirsdóttur. Hún hafði í ágætri ræðu nokkur orð um störf nefnda þingsins eins og þau eru núna. Það hefur komið fram reyndar áður gagnrýni á störf nefndanna varðandi afgreiðslu fjárlaga. Þannig er það að fjárln. fær fjárlagafrv. til meðferðar og hún vísar síðan fjárlagafrv. til annarra nefnda þingsins eftir því sem við á þannig að fagnefndir þingsins hafa tækifæri til að fjalla um frv. og koma síðan áliti til fjárln. áður en hún afgreiðir það frá sér til 2. og 3. umr. Það hefur örlað á þeim misskilningi, m.a. kom það fram fannst mér hjá hv. 14. þm. Reykv., að þetta væri í óeðlilegu horfi, það hefur jafnvel komið fram að það um tvíverknað væri að ræða og þetta þyrfti að vera öðruvísi. Það kann vel að vera að þarna geti orðið á breyting til bóta en ég tel af fenginni reynslu af störfum mínum í fjárln. að álit fagnefndanna sé mjög mikilvægt. Nefndirnar leggja reyndar mjög mismunandi vinnu í þessi álit. Ég tel að það væri mjög slæmt ef frá þessu yrði horfið. Það er mjög mikilvægt að fá t.d. umsagnir og sjónarmið hv. landbn. eða hv. heilbrn. eða hv. iðnn. um þá málaflokka sem fjárlagafrv. fjallar um og viðkomandi nefndir hafa á sinni könnu þannig að þær áherslur sem nefndirnar vilja leggja komi skýrt og greinilega inn til fjárln. áður en að fjárln. fjallar nánar um það.

Oft hefur það viljað brenna við að menn hafa einkum litið til þess að það væri eðlilegt að fagnefndirnar fengju það verkefni að úthluta tilteknum liðum í fjárlagafrv. og gera tillögur um það. Ég tel að það geti ekki verið neitt aðalatriði heldur eru mikilvægustu þættirnir í þessari vinnu að koma á framfæri áherslum frá fagnefndunum til fjárln. áður en endanleg afgreiðsla fjárln. fer fram. Ég minnist þess að ýmsar nefndir þingsins hafa á undangengnum árum lagt fram mjög vandaða og góða vinnu fyrir fjárln. en auðvitað er það þannig að það er ekki hægt að taka allt upp, allar þær tillögur sem koma frá öðrum nefndum, í tillögur fjárln. Og það er nú e.t.v. niðurstaðan af þessum vangaveltum að ágreiningurinn hefur orðið milli fagnefndanna og fjárln. þegar fjárln. hefur ekki tekið upp allar tillögur sem komið hafa fram. Þess vegna hefur þessi gagnrýni kannski komið upp.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að taka þingsköp Alþingis til umræðu og umfjöllunar í þinginu og þess vegna fagna ég því að slíkt tækifæri gefst núna. Það er þá væntanlega ágætur undirbúningur undir þær breytingar sem á næstu árum gætu orðið á þingsköpum Alþingis, þó að, eins og ég sagði í upphafi, ekki séu miklar líkur á því að frv. verði afgreitt eða það verði að lögum á þessu þingi.