Þingsköp Alþingis

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 17:39:13 (541)

1996-10-28 17:39:13# 121. lþ. 11.9 fundur 21. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[17:39]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir þessar athugasemdir og fagna því að á vettvangi þingflokka sé nú unnið að hugmyndum og breytingum á þingsköpum. Ég vil hins vegar mótmæla því að fjárln. taki ekkert mark á áliti fagnefnda. Eins og ég sagði áðan þá skiptir miklu máli að það sé vel unnið. Það er mjög slæmt ef sú er tilfinning þingmanna sem sitja í öðrum nefndum en fjárln. að ekki sé hlustað á það sem kemur frá þeim. Það er mjög vont og náttúrlega afar slæmt ef það leiðir til þess að ekki er vel unnið. Ég minnist þess að það hefur gerst að formenn eða jafnvel tilteknir talsmenn, fleiri en einn, fagnefnda hafi komið og mælt fyrir álitum fagnefndanna hjá fjárln. Ég tel að sá háttur sé mjög æskilegur. Ég tel hann í rauninni nauðsynlegan þannig að það fari ekkert á milli mála hvaða áherslur fagnefndirnar leggja við fjárln. Ég tel því að það skipulag væri af hinu góða og teldi nú að það mætti þá e.t.v. bæta þessi samskipti með því að gera það sem var gert á síðasta kjörtímabili, þ.e. að talsmenn fagnefndanna mæltu fyrir nefndarálitunum hjá fjárln. Ég vil bara endurtaka það sem ég sagði áður, að ég tel að það sé afar mikilvægt að fagnefndirnar vinni vel álit um fjárlagafrv. til að auðvelda starf fjárln.