Þingsköp Alþingis

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 18:02:25 (546)

1996-10-28 18:02:25# 121. lþ. 11.9 fundur 21. mál: #A þingsköp Alþingis# (rannsóknarvald þingnefnda) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[18:02]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. 13. þm. Reykv., Jóhanna Sigurðardóttir, beindi orðum sínum til mín þannig að ég vil leyfa mér að veita hér andsvar, en segja í fyrsta lagi að auðvitað var ég að lýsa mínum persónulegum skoðunum um það og reyna að leggja mat á möguleikana á því að frv. sem hér er til umræðu yrði afgreitt.

Mitt mat var að það hlyti ekki endanlega afgreiðslu á þessu þingi, en það er auðvitað mitt persónulega mat og verður síðan að koma í ljós hvort það er rétt eða rangt.

Í annan stað spurði hv. 13. þm. Reykv. mig um það hvort uppi væru einhverjar hugmyndir um að gera breytingar á þingsköpum og auðvelda þingmönnum að komast að ýmsum hæstv. ráðherrum með fyrirspurnir í þinghléi. Um það get ég ekkert sagt. Eins og kom skýrt fram hjá hv. 8. þm. Reykv. er þessi vinna í gangi á þeim eðlilega vettvangi sem er hjá formönnum þingflokka undir forustu forseta þingsins. Þannig að ég held að það sé rétt að sjá hvað setur og hvað kemur í formi tillagna frá þeim ágæta hópi.

Í þriðja lagi vildi ég svo nefna það í andsvari að ég get út af fyrir sig verið alveg sammála hv. 13. þm. Reykv. um að það þarf að skipuleggja starfið í þinginu þannig að eðlileg framvinda sé í verkum og ekki sé allt undir á síðustu vikum. Þá er ég ekki síst að tala um þingmannamál sem þurfa auðvitað að fá ekkert síðri afgreiðslu en stjfrv. Það er auðvitað grundvöllur að okkar starfi í þinginu að þingmenn hafi möguleika á að koma fram málum. Þess vegna vil ég undirstrika það hér og taka undir með þingmanninum að skipulagið þarf að auðvelda þingmönnum að koma málum í gegn og að því þurfum við að vinna.