Aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni

Mánudaginn 28. október 1996, kl. 18:06:10 (548)

1996-10-28 18:06:10# 121. lþ. 11.10 fundur 40. mál: #A aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni# þál., Flm. GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur

[18:06]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni. Flutningsmenn eru auk mín þau Ásta R. Jóhannesdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Hjörleifur Guttormsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Halldórsdóttir og Össur Skarphéðinsson. Tillagan hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem hafi það verkefni að beita sér fyrir að skipulega verði brugðist við málum er varða kynferðislega áreitni í opinberum stofnunum og á öðrum vinnustöðum og að skipuleggja fræðslu um slíka áreitni. Tryggt verði að allir starfsmannastjórar, trúnaðarmenn, dómarar og lögfræðingar eigi kost á slíkri fræðslu.``

Í greinargerð kem ég víða við og það er ætlunin að lesa hana upp að mestu leyti hér með dálítilli viðbót.

,,Kynferðisleg áreitni var gerð refsiverð samkvæmt íslenskum lögum árið 1992, sbr. 198. gr. almennra hegningarlaga en þar segir:

,,Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann utan hjónabands eða óvígðrar sambúðar með því að misnota freklega þá aðstöðu sína að hann er honum háður fjárhagslega, í atvinnu sinni eða sem skjólstæðingur hans í trúnaðarsambandi skal sæta fangelsi allt að 3 árum eða, sé maðurinn yngri en 18 ára, allt að 6 árum. Önnur kynferðisleg áreitni varðar fangelsi allt að 2 árum.``

Þrátt fyrir það er hvergi að finna skilgreiningu á kynferðislegri áreitni í íslenskum lögum.

Í 6. gr. laga um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla frá 1991 segir að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna fólki eftir kynferði og gildir það m.a. um vinnuaðstæður og vinnuskilyrði. Kærunefnd jafnréttismála hefur túlkað þetta ákvæði þannig að atvinnurekanda beri að sjá til þess að kynferðisleg áreitni viðgangist ekki á vinnustað. Í norrænni löggjöf um jafnréttismál eru hins vegar skýr ákvæði um kynferðislega áreitni, t.d. í 6. og 22. gr. sænsku jafnréttislaganna (1991:433).

Kynferðisleg áreitni hefur verið skilgreind sem óvelkomin framkoma, kynferðislegs eðlis, sem beinist að kynferði eða kynímynd einstaklings og hefur þau áhrif eða markmið að honum eru sköpuð auðmýkjandi eða fjandsamlegar aðstæður til náms, vinnu eða félagslegrar samveru. Kynferðisleg áreitni felur í sér samskipti sem einkennast af misnotkun á valdi eða stöðu, andlega kúgun og árás á sjálfsvirðingu og sjálfsímynd einstaklingsins. Áreitnin er alltaf niðurlægjandi fyrir þann sem fyrir henni verður og hefur neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu hans. Það sem aðgreinir kynferðislega áreitni frá daðri t.d. er það að hún er aldrei velkomin, ekki gagnkvæm og er aldrei á jafnréttisgrundvelli.

Evrópusambandið skilgreinir kynferðislega áreitni á eftirfarandi hátt í starfsreglum frá árinu 1992 (Code of practice: On measures to combat sexual harassment):

,,Kynferðisleg áreitni er óvelkomin kynferðisleg hegðun eða önnur kynbundin hegðun sem hefur áhrif á sjálfsvirðingu kvenna og karla á vinnustað. Þessi óvelkomna hegðun getur verið líkamleg, orðbundin eða myndræn.

Kynferðisleg áreitni nær því yfir margs konar hegðun sem er óvelkomin, óskynsamleg og móðgandi fyrir viðkomandi; það hvort viðkomandi viðurkennir eða mótmælir slíkri hegðun af hálfu yfirmanns eða samstarfsmanns skiptir máli beint eða óbeint fyrir aðgang viðkomandi að starfsþjálfun, atvinnu, hvort starfi er haldið, stöðuhækkun, laun eða annað viðkomandi starfsumhverfi; og/eða hegðunin skapar óþægilegt, fjandsamlegt eða auðmýkjandi vinnuumhverfi fyrir þann sem hegðunin beinist að.

Megineinkenni kynferðislegrar áreitni er að hegðunin er óvelkomin, og það er mat einstaklingsins sem ræður því hvaða hegðun er viðurkennd og hvaða hegðun er talin móðgandi. Kynferðisleg hegðun verður áreitni ef henni er haldið áfram þrátt fyrir að það hafi verið gefið skýrt til kynna að viðkomandi hegðun sé óvelkomin, þó getur eitt tilvik talist kynferðisleg áreitni ef það er nægilega alvarlegt. Það er fyrst og fremst það einkenni að hegðunin er óvelkomin sem aðgreinir kynferðislega áreitni frá vinalegri hegðun sem er velkomin og gagnkvæm.``

Sem dæmi um líkamlega áreitni má nefna óvelkomna snertingu, atlot, kossa eða þvingun til samræðis. Dæmi um orðbundna áreitni eru klámyrði, blístur, hróp, kynferðislega niðurlægjandi athugasemdir um líkama einhvers eða lifnaðarhætti eða óvelkomin, endurtekin tilboð eða þrýstingur á kynferðisleg samskipti. Myndræn áreitni eða áreitni án orða er tvíræðar augngotur, hljóð og hreyfingar, kynferðislega niðurlægjandi tákn eða veggspjöld og notkun slíkra tákna til að auglýsa atburði eða samkomur.

Með tilvísun í nýleg dæmi um ásakanir um kynferðislega áreitni er brýnt að sjá til þess að fræðsla eigi sér stað um kynferðislega áreitni í opinberum stofnunum og á öðrum vinnustöðum, einnig að markaður verði skipulegur farvegur með skýrum starfsreglum innan allra opinberra stofnana og helst allra vinnustaða fyrir kvartanir og ásakanir um kynferðislega áreitni í þeim tilgangi að stöðva mál af þessu tagi á byrjunarstigi. Fyrirmyndir um slíka farvegi má finna hjá fjölmörgum erlendum háskólum, fyrirtækjum og stofnunum, m.a. á veraldarvefnum. Yfirleitt er um litlar trúnaðarnefndir að ræða þar sem bæði kynin eiga fulltrúa. Hlutverk þeirra er að hlusta á báða málsaðila, veita áminningar við fyrsta brot og grípa til róttækari aðgerða ef kvartanir eða ásakanir halda áfram. Starfsreglur stofnana um kynferðislega áreitni hafa yfirleitt fyrirbyggjandi tilgang en þeim er einnig ætlað að leysa þau vandamál sem upp koma og ekki er vísað til dómstóla.

Umræðan um kynferðislega áreitni er loksins komin upp á yfirborðið hér á landi, en slík mál hafa lengi verið í opinberri umræðu í flestum nágrannalanda okkar. Fyrstu viðbrögð eru svipuð og þegar umræðan um konur og heimilisofbeldi var að öðlast viðurkenningu eða umræðan um sifjaspell. Þá var spurt hvort það væri ekki einkamál hvað gerðist á milli hjóna innan veggja heimilisins og hvort feður mættu ekki lengur sýna dætrum sínum hlýju. Nú er spurt hvort ekki sé lengur leyfilegt að leggja höndina á öxl nemanda og hvort banna skuli daður á vinnustað.

Þessar spurningar og viðbrögð eru skýr merki um vanþekkingu á efninu og sýna betur en margt annað þörfina á að unnið verði markvisst fyrirbyggjandi starf á þessu sviði. Gera verður skýran greinarmun á snertingu umhyggjusams kennara og kynferðislegri áreitni, daðri og áreitni, ástarleikjum og nauðgun. Annars vegar er umhyggja og gagnkvæm ánægja, hins vegar misbeiting á valdi sem aldrei er á jafnréttisgrundvelli --- óvelkomin, endurtekin kynferðisleg hegðun.

Það er eitt að kynferðisleg áreitni er refsiverð samkvæmt íslenskum lögum og annað að móta reglur og skapa skipulegan farveg fyrir ásakanir og fræðslu um kynferðislega áreitni á vinnustöðum og opinberum stofnunum. Flest mála af þessu tagi sem á annað borð koma upp á yfirborðið, nema þau allra grófustu, enda ekki með ákæru fremur en mál er varða heimilisofbeldi. Þetta skýrist m.a. af því að oft eru aðstæður þannig að viðkomandi getur ekki kært ef hún eða hann ætlar að ljúka sínu námi, halda vinnunni eða viðhalda mikilvægu trúnaðarsambandi. Oft er um mjög viðkvæm mál að ræða sem erfitt er að taka upp eftir sömu leiðum og önnur brot á vinnustað.

[18:15]

Lítið hefur til þessa reynt á 198. gr. hegningarlaganna frá árinu 1992 þegar kynferðisleg áreitni var gerð refsiverð að íslenskum lögum. Nýlega hafa þó fallið tveir dómar um kynferðislega áreitni. Athyglisvert er að í báðum dómunum er um karlmenn að ræða, þ.e. karlmenn að áreita karlmenn. Það er athyglisvert vegna þess að allar tiltækar kannanir benda til að konur verði mun oftar fyrir kynferðislegri áreitni en karlar.

Rannsóknir í háskólum á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum benda til að 10--20% kvenna verði fyrir kynferðislegri áreitni í háskólum, en allt upp í 40% þegar um æðri námsgráður er að ræða. Meðal karla eru tölurnar töluvert lægri. Samkvæmt könnun jafnréttisnefndar Helsinkiháskóla árið 1995 töldu 10,8% starfsfólks og 5,5% stúdenta sig hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Af þeim voru 78% starfsfólksins og 70% stúdentanna konur. Við flesta bandaríska og marga evrópska háskóla og marga skóla á lægri skólastigum hafa verið mótaðar skýrar reglur fyrir mál af þessu tagi. Um leið og nemi eða kennari verður var við ítrekaða áreitni veit hann hvert á að snúa sér með kvartanir. Yfirleitt þarf að bera fram kvartanir skriflega. Í fyrstu eru aðeins veittar áminningar og oft dugar það. Háskólinn í Stokkhólmi samþykkti slíkar reglur árið 1992, Óslóarháskóli 1995 og háskólinn í Helsinki 1996 svo dæmi séu tekin.

Bandarískar rannsóknir á vinnustöðum benda almennt til að um 40% kvenna og um 15% karla verði fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustöðum en evrópsku tölurnar eru almennt töluvert lægri eða 10--20% meðal kvenna. Skýringarnar á þessum mun eru að hluta til af menningarlegum toga, en einnig getur verið um mismunandi skilgreiningar að ræða. Tiltækar íslenskar kannanir, þó takmarkaðar séu og ekki alveg nýjar, sýna að þrátt fyrir að fyrirbærið hafi að mestu legið í þagnargildi telja tæp 10% kvenna sig hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni.

Í framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um jafnrétti kynjanna frá árinu 1993 er gert ráð fyrir að í vinnuverndartilgangi verði staðið að könnun á kynferðislegri áreitni á vinnustöðum á Íslandi og umfangi hennar. Á grundvelli könnunarinnar og þeirrar þekkingar, sem liggur fyrir hjá öðrum þjóðum, verði unnið markvisst að því að sporna gegn kynferðislegri áreitni á vinnustöðum. Það er fagnaðarefni að þessari könnun á kynferðislegri áreitni á Íslandi er nú lokið. Ljóst þykir að niðurstöður könnunarinnar munu ekki breyta því að samþykkt þessarar þingsályktunartillögu er löngu tímabær. Eðlilegt þykir að sú nefnd, sem skipuð verður samkvæmt tillögunni, hafi samráð við þá aðila sem vinna með kynferðislega áreitni á Skrifstofu jafnréttismála og við áðurnefnda könnun.

Umræðan í þjóðfélaginu bendir ótvírætt til að töluvert vanti á að fólk skilji að kynferðisleg áreitni er einelti og mannréttindabrot sem ekki á að líða, hver sem í hlut á. Þess vegna og til að stuðla að skýrum starfsreglum er fræðsla um þessi mál mjög mikilvæg, ekki síst meðal starfsmannastjóra, trúnaðarmanna, atvinnurekenda, lögfræðinga og dómara. Mikilvægt er að starfsreglur stofnana séu skýrar og aðgengilegar fyrir starfsfólk þannig að fólk verði meðvitað um rétt sinn og viti hvernig beri að bregðast við kynferðislegri áreitni komi hún upp á vinnustað. Sem fyrsta skref í fræðslu af þessu tagi má benda á bækling Jafnréttisráðs um kynferðislega áreitni og tilboð Skrifstofu jafnréttismála um að svara spurningum um efnið.

Það er skoðun flutningsmanna að þessi þingsályktunartillaga hafi annars vegar fyrirbyggjandi tilgang og hins vegar leiðbeinandi ef vandamálið kemur upp. Markmiðið er að á öllum vinnustöðum verði skapað vinnuumhverfi sem dragi úr líkum á að fólk verði fyrir kynferðislegri áreitni; að komið verði á fót ódýru og skilvirku fræðslukerfi fyrir starfsmenn ríkisins; og að starfsreglur stofnana geri fólk meðvitað um rétt sinn og hvernig ber að bregðast við kynferðislegri áreitni komi hún upp á vinnustað eða í trúnaðarsambandi í opinberri stofnun.

Herra forseti. Að lokum vil ég minna á að þegar sú sem hér stendur ræddi um þetta mál utan dagskrár á síðasta þingi, kom fram í svari hæstv. forsrh. að ráðuneytin hafa fengið fregnir af því að mál er snúast um kynferðislega áreitni hafi komið upp í einstökum stofnunum. Slík mál hafi verið útkljáð án atbeina ráðuneytis en stundum með því að þeir sem ásakaðir voru um kynferðislega áreitni hafi hætt störfum. Þá ítrekaði hæstv. forsrh., sem því miður er ekki viðstaddur í þingsalnum í dag, að hann teldi rétt að þingið og ríkisvaldið eigi að marka skýrar og glöggar reglur um þessi mál sem ekki hafi verið sýndur nægilegur skilningur til þessa. Það er því von mín að þessi þáltill. fái góðar undirtektir og að þingið afgreiði þetta mikilvæga hagsmunamál sem allra fyrst. Nágrannalöndin eru öll að koma sér upp skipulagi til að taka á svona málum og það er tímabært að við gerum það líka.

Að lokinni þessari umræðu, hæstv. forseti, legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. allshn.