Öryggi raforkuvirkja

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 13:47:48 (553)

1996-10-29 13:47:48# 121. lþ. 12.5 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[13:47]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er tvennt sem menn þurfa að hafa áhyggjur af í þessu sambandi og þeim áhyggjum deili ég að vissu leyti með hv. þm. Frá 1993, er skipulagsbreyting var gerð á rafmagnsöryggismálum, hefur að nokkru leyti --- og ég get tekið undir það með hv. þm. --- ríkt hálfgert ófremdarástand. Og það ófremdarástand byggist á því að ekki hafa verið skýr verkaskipti milli skoðunarstofanna annars vegar og svo hins vegar Rafmagnseftirlits ríkisins. Með þessu frv. er alveg skýrt á um það kveðið hvernig þessi verkaskipting skuli vera og með hvaða hætti hún skuli vera. Ég er sannfærður um að þegar frv. verður orðið að lögum og með þeirri skýru verkaskiptingu sem þarna er lögð til þá munum við efla og treysta enn frekar öryggismálin. Ég er í engum vafa um það, hv. þm.

Hins vegar það sem að kostnaðinum snýr, þ.e. varðandi 4. tölul. 14. gr. þessa frv., er gert ráð fyrir viðbótarútgjöldum sem greidd eru af virðisauka raforkunnar. Sá kostnaður getur verið allt upp í 58 millj. kr. En ég held að við hv. þm. getum verið sammála um að þessi þáttur málsins hefur kannski verið einna mest vanræktur á undanförnum árum og full ástæða er til að treysta enn betur öryggismál neytenda. Aftur á móti leiðir frv. til sparnaðar á mörgum öðrum sviðum. Fyrst fremst er sparnaður í yfirstjórn með sameiningu þessara stofnana og markvissari aðgerðum. Síðan er um aðra þætti í þessum málaflokki að ræða sem leiða til sparnaðar í einstökum liðum 14. gr. Hins vegar er líka ljóst að það mun hafa einhvern kostnaðarauka í för með sér og sá kostnaðarauki mun leggjast á virðisaukann af raforkusölunni.