Öryggi raforkuvirkja

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 13:50:07 (554)

1996-10-29 13:50:07# 121. lþ. 12.5 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[13:50]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsi yfir ánægju minni með að hæstv. ráðherra skuli hafa áhyggjur af málinu því það er virkilega ástæða til. Ég tók fram áðan að rafverktakar og rafmagnseftirlitsmenn hafa mjög miklar áhyggjur af þeim kostnaðarauka sem heimilin og neytendur verða fyrir í þessum málum. Vitað er um reikninga sem hafa þegar farið af stað frá skoðunarstofum sem er allt að tíföld hækkun hjá einstökum aðilum vegna úttektar og skoðunar miðað við þá fyrri. Ég bið hæstv. ráðherra að kynna þetta mál mjög vel fyrir rafverktökum og ræða við þá aðila sem fara með raforkumannvirki. Ég hugsa að um 80--90% af þeim aðilum séu á móti þessum breytingum sem er verið að gera og ég hef miklar áhyggjur af því. En ég þakka fyrir svörin og þakka fyrir það að ráðherra skuli hafa áhyggjur af málinu.