Öryggi raforkuvirkja

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 13:53:43 (556)

1996-10-29 13:53:43# 121. lþ. 12.5 fundur 73. mál: #A öryggi raforkuvirkja# frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[13:53]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég tel að hérna sé komið merkilegt mál, vonum seinna. Staðreyndin er sú að þessi mál hafa verið í öngþveiti og ógöngum alveg frá því á árunum 1992 eða 1993 þegar iðnrn. gaf út reglugerð um grundvallarbreytingar á Rafmagnseftirliti ríkisins þar sem m.a. var gert ráð fyrir breytingum sem í ljós kom eftir athugun í iðnn. Alþingis að stóðust ekki lög. Ég hygg að fá dæmi séu þess að iðnn. Alþingis eða fagnefndir Alþingis yfirleitt hafi neyðst til að taka reglugerðir í gegn með svipuðum hætti og gerðist að því er varðar þessa sérstöku reglugerð og svo fór að lokum að reglugerðinni var breytt og hún var í rauninni kölluð til baka. En þá var skaðinn skeður. Þá var búið að leysa upp Ragmagnseftirlit ríkisins og veikja það mjög verulega frá því sem verið hafði. Það var búið að efna til óánægju með rafmagnseftirlitsmál almennt bæði innan stofnunarinnar og líka t.d. úti á landi þar sem þessi þjónusta er mikilvæg ekki síður en annars staðar.

Á síðasta kjörtímabili fór iðnn. yfir þetta mál aftur og aftur. Ég hygg að hún hafi haldið marga fundi og iðnn. gerði mig, þá sem formann nefndarinnar, út á fund ráðherra til að ræða þessi mál, fyrrv. ráðherra, hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, erfðaprins eins og hann hefur verið kallaður þessa dagana, af einhverjum ástæðum, ég veit ekki af hverju það er. Það var greinilega vilji fyrir því að taka á málinu í iðnrn. En það gerðist ekkert. En nú er það loksins komið hingað í þessum búningi. Það er komið hér frv. um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga. Og það er komið annað frv. sem er á dagskrá á eftir og snertir Löggildingarstofuna. Það er gott og ég er ánægður með að þessi mál eru komin hingað, ég segi það eins og er. Mér finnst það mikilvægt. Þetta er hins vegar flókið mál og ég tel að mikilvægt sé að iðnn. vandi sig við yfirferð á málinu sem hún gerir vafalaust. Vegna þess að hér er stórmál á ferðinni og vandi sem í sjálfu sér sést aldrei meðan hlutirnir eru í lagi. Ef hins vegar hlutirnir eru ekki í lagi getur orðið tjón og vandi skapast sem getur verið hrikalegur vegna þess að um er að ræða svo stóra hluti. Hér er um að ræða mál sem, eins og hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Gísli Einarsson nefndi, snertir rafverktakana. Þetta snertir auðvitað rafveiturnar mjög mikið og við urðum vör við það í hv. iðnn. á síðasta kjörtímabili að rafveiturnar voru mjög áhyggjufullar. Þetta snertir líka núverandi starfsmenn Rafmagnseftirlits ríkisins sem hafa búið við óvissu og mér sýnist að óvissan geti magnast enn hjá þeim. Ég vil sérstaklega spyrja um þá, starfsmenn Rafmagnseftirlitsins, hvernig ætlunin er að fara með þeirra mál í framhaldi af því að þetta frv. verði að lögum. En ríkisstjórnin mun gera ráð fyrir að frv. verði að lögum núna fyrir áramót vegna þess að frv. er ein af forsendum fjárlaganna. Gert er ráð fyrir því í fjárlögum iðnrn. að fara með kostnað við rafmagnseftirlit með sérstökum hætti á grundvelli þeirra frv. sem hér liggja fyrir.

Þetta mál snertir líka rafveiturnar sjálfar almennt og margir fulltrúar þeirra komu á fund okkar og síðan kemur upp þessi nýi eftirlitsiðnaður. Það má segja að núv. ríkisstjórn haldi áfram á sömu braut og fyrri stjórn. Ein helsta atvinnusköpun síðustu ríkisstjórnar var þessi eftirlitsiðnaður. Gerðir voru út eftirlitsmenn um allt, keyrandi hver á eftir öðrum, alls konar menn með stimpla út og suður. Þetta var hið mikla frelsi sem Sjálfstfl. innleiddi með Alþfl. á síðasta kjörtímabili. Endalaust eftirlit og endalaus höft af ýmsu tagi. Og hérna er haldið áfram á þessari braut. Það er þessi eftirlitsiðnaður sem er verið að efla og á að einkavæða. Niðurstaðan er sú að hann er miklu dýrari fyrir almenning, miklu dýrari. Skoðunarstofurnar sem starfa að þessu og eru vafalaust góð fyrirtæki og vönduð með miklu af góðu og vönduðu fólki, fagmönnum, --- það er ljóst að þjónusta þeirra er dýrari en hún var. Við höfum séð reikninga frá skoðunarstofum og borið þá saman við reikninga frá Rafmagnseftirlitinu eins og það var. Það eru miklu hærri reikningar, eins og hv. þm. Gísli Einarsson benti á áðan --- miklu hærri reikningar. Þannig að þessi ,,prívatísering`` á almennri eftirlitsstarfsemi hér á Íslandi hefur þýtt stórkostlega aukna fjármuni og aukinn kostnað fyrir fyrirtækin í landinu, hefur verið íþyngjandi fyrir fyrirtækin, stórkostlega. Þannig að ekki hefur verið um það að ræða að fyrirtækin hafi sloppið betur frá þessu en áður. Á sama tíma gerist þetta allt með þeim rökum að verið sé að létta kostnaði af ríkinu. Út af fyrir sig getur verið nokkuð til í því að þegar kostnaðinum er velt yfir á aðra lendir hann ekki beint á ríkissjóði sjálfum. En hann lendir á raforkunotendum og á fyrirtækjunum. Og ég hygg að það sé alveg rétt, sem var ýjað að áðan, að engar upplýsingar eru til í raun og veru hvað þessi ósköp kosta, þessi skoðunariðnaður allur, og væri gaman að gera á því sérstaka úttekt fyrir þjóðfélagið að líta á þessi mál við tækifæri.

[14:00]

Í umsögn um frv. til laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga sem birt er frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. kemur fram að á árinu 1996 var gert ráð fyrir að fá í tekjur af rafmagnseftirlitsgjaldi 100 millj. kr. Við vöruðum við því í hv. iðnn. á þeim tíma að þetta gæti verið fullhátt og kannski vafasamt að þetta næðist. Það var náttúrlega ekki hlustað á það. Niðurstaðan varð síðan sú sem kemur fram, átakanleg heimild um vitlausar áætlanir í fjmrn., að það fást ekki 100 millj. af þessu gjaldi heldur miklu lægri upphæð eða í kringum 67 millj. kr. Það er nokkuð mögnuð heimild um ónákvæmni í áætlunum í fjmrn. að þetta rafmagnseftirlitsgjald sem átti að gefa 100 millj. kr. gefur ekki nema 67 millj. kr. Mér segir svo hugur að sú áætlun sem byggt er á núna miðað við hin nýju lög sé álíka mikið skot út í loftið --- svo að ég noti orð sem hæstv. forsrh. er frægastur fyrir þegar hann gerði áætlanir um Perluna á sínum tíma --- sé álíka mikið skot út í loftið og í fyrra, það sé ekkert að marka þetta þannig að menn viti svo sem ekki mikið um hvað þeir eru að tala að því leytinu til. Fjárhagshliðin á þessu máli er því örugglega sú að í heildina tekið verður þetta kerfi dýrara. Hitt er annað að vonandi verður hægt að búa þannig um hnútana að kerfið verði a.m.k. eins öruggt og það var og það verður örugglega að mér sýnist öruggara en það hefur verið á undanförnum árum eftir að iðnrn. fór að hræra í því með reglugerðinni sem var sett og fræg er að endemum frá árinu 1992.

Ég á sæti í hv. iðnn., hæstv. forseti, og gefst þannig kostur á að fara yfir málið. En ég endurtek að ég tel að hér sé um að ræða mikilvægt mál og það sama eigi við um frv. um Löggildingarstofuna sem hér verður mælt fyrir á eftir sem er hluti af þessu sama máli.