Löggildingarstofa

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 14:03:24 (558)

1996-10-29 14:03:24# 121. lþ. 12.6 fundur 74. mál: #A Löggildingarstofa# frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[14:03]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um Löggildingarstofu. Frv. er á þskj. 74 og er 74. mál þingsins. Megintilgangur frv. er að samræma opinbert eftirlit sem undir ráðuneyti mín falla, undir eina yfirstjórn og ná með því fram faglegri og fjárhagslegri hagræðingu. Í þessu felst að Rafmagnseftirlit ríkisins og Löggildingarstofan eru sameinaðar í eina stofnun, Löggildingarstofu. Með slíkri sameiningu er unnt að lækka kostnað ríkisins um 5--7 millj. kr. og jafnframt að tryggja að ekki verði gerðar gagnstæðar kröfur af mismunandi eftirlitsstjórnvöldum. Gert er ráð fyrir að ný stofnun taki við verkefnum sem Rafmagnseftirlit ríkisins og Löggildingarstofan gegna í dag.

Þar sem Löggildingarstofan er ein elsta stofnun ríkisins þykir við hæfi að hin nýja stofnun, sem tekur við hlutverki hennar og Rafmagnseftirlits ríkisins, haldi að stofni til hinu rótgróna nafni. Sú breyting er þó gerð að hún er nú kölluð Löggildingarstofa í stað Löggildingarstofan, sbr. t.d. Fiskistofa.

Hin síðari ár hefur starf Löggildingarstofunnar fengið stóraukna þýðingu fyrir atvinnulífið, einkum í ljósi mikilla framfara sem orðið hafa í mælitækni og nýrra þarfa í nákvæmni í mælingum, t.d. á hitastigi, tíðni, geislun og fleiri atriðum. Auk þess er mælifræðin ein helsta undirstaða gæðakerfa í iðnaði og verslun.

Löggildingarstofan hefur verið virkur þátttakandi í framkvæmd ákvæða EES-samningsins um gagnkvæma viðurkenningu á niðurstöðum prófana og staðfestingum í samræmi við tækniákvæði sem gilda eiga í öllum aðildarríkjunum um vörur á almennum neytendamarkaði. Mikilvægur þáttur í þessu er faggildingin. Löggildingarstofan veitir prófunar-, skoðunar- og vottunarstofum faggildingu samkvæmt sameiginlegum reglum sem settar eru fram í evrópskum stöðlum og skulu þá vottorð frá faggiltum aðilum njóta gagnkvæmrar viðurkenningar í öllum aðildarríkjunum.

Hlutverk Rafmagnseftirlits ríkisins er um margt líkt hlutverki Löggildingarstofunnar. Báðar þessar stofnanir fjalla um neytendavernd út frá tæknilegum forsendum. Rafmagnseftirlit ríkisins sér um öryggi raffanga og opinbera markaðsgæslu þeirra og Löggildingarstofan annast á sama hátt öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu fyrir vöruflokka sem ekki falla undir önnur sérlög. Báðar stofnanirnar eru stjórnsýslustofnanir er fjalla um opinbert eftirlit og er eðlilegt að gætt sé ýtrasta samræmis í meðferð þeirra mála. Það á að vera tryggt með sameiningu stofnananna.

Skipting þessi á sér sögulegar og eðlilegar ástæður þar sem lögmælifræði tengist fyrst og fremst viðskiptalífinu og hagsmunum neytenda en rafmagnsöryggismál hafa til skamms tíma fyrst og fremst talist vera raforkumál.

Með tilkomu gæðastjórnunar og innra eftirlits fyrirtækja hin síðari ár hefur hið opinbera haft tækifæri til að breyta hlutverki sínu í tæknilegu eftirliti á raforkusviði. Fyrirtækin hafa þannig orðið virkari þátttakendur í fyrirbyggjandi aðgerðum til varnar hættum og tjóni af völdum rafmagns en áður. Við þetta hefur hið opinbera getað breytt eftirliti sínu í takt við kröfur og þarfir atvinnulífsins. Breytingarnar felast fyrst og fremst í því að fyrirtækin taka sjálf við hluta af fyrra stjórnvaldseftirliti án þess þó að það sé að öllu leyti afnumið. Þannig verður til sívirkt innra eftirlit fyrirtækjanna sjálfra í stað stopulla heimsókna fulltrúa opinberra eftirlitsstofnana.

Á grundvelli þessa er fyrirséð að opinbert eftirlit muni í framtíðinni að meira eða minna leyti verða viðskipta- og neytendamál en ekki tæknimál. Málaflokkur þessi er því í heild sinni fluttur undir viðskiptaráðherra.

Löggildingarstofan fer nú með málaflokka sem nefnast lögmælifræði og hagnýt mælifræði og m.a. tengjast elstu verkefnum stofnunarinnar um vog og mál. Þá annast Löggildingarstofan einnig faggildingar hér á landi. Um þessa málaflokka er fjallað í lögum um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992. Auk þessa annast Löggildingarstofan um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, sbr. lög nr. 134/1995, sem taka til þeirra vöruflokka er ekki falla undir önnur lög.

Við gildistöku laga þessara fellur brott 2. mgr. 14. gr. laga um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992, sbr. lög nr. 147/1992, enda hefur ákvæði hennar verið fellt inn í þessi lög.

Það er ósk mín að frv. þessu um Löggildingarstofu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og efh.- og viðskn.