Löggildingarstofa

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 14:19:23 (565)

1996-10-29 14:19:23# 121. lþ. 12.6 fundur 74. mál: #A Löggildingarstofa# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[14:19]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi starfsmennina. Ég gerði tilraun til þess að svara fyrri fyrirspurn hv. þm. um það. Það verður leitast við að ráða þá starfsmenn sem núna eru starfandi hjá þessum stofnunum í nýja stofnun. Það er hins vegar líka gert ráð fyrir ákveðinni hagræðingu og sparnaði sem af sameiningu þessara stofnana getur orðið og við væntum að svo verði. Ég trúi ekki að hv. þm. sé á móti því að ríkið leitist við að spara í yfirstjórn stofnana með sameiningu þeirra. Ég trúi ekki að hv. þm. sé á móti því.

Varðandi stjórnina þá er nú starfandi stjórn fyrir Löggildingarstofuna. Formaður þeirrar stjórnar er jafnframt formaður Neytendasamtakanna og ástæðan fyrir því að það val var viðhaft er að ég tel að það sé mjög mikilvægt að eiga mjög gott samband og samvinnu við Neytendasamtökin um Löggildingarstofuna vegna þess að þetta er fyrst og fremst stofnun til að tryggja hag neytenda. Því varð formaður Neytendasamtakanna fyrir valinu að þessu sinni.