Brunatryggingar

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 14:43:46 (575)

1996-10-29 14:43:46# 121. lþ. 12.7 fundur 75. mál: #A brunatryggingar# (umsýslugjald) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[14:43]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt að stjórnarandstaðan varaði mjög við þessu á sínum tíma og gagnrýndi hvernig haldið var á málinu. Það er kannski þeim mun dapurlegra að málalokin urðu eins og raun ber vitni, að stjórnvöld eru neydd til, með rökstuddu áliti umboðsmanns Alþingis m.a., að viðurkenna mistök sín. Með öðrum orðum, það er ekki nóg að á Alþingi sé sett fram málefnaleg og rökstudd gagnrýni. Það er ekki tekið mark á henni. Það er tuddast áfram í málunum þangað til menn reka sig á vegg og neyðast til að leiðrétta mistökin. Þetta mætti verða okkur til umhugsunar og víti til varnaðar því þetta gerist því miður æði oft. Þeir sem hér eru þó að fylgjast með málum og setja sig inn í þau reyna að vara við mistökum eða biðja um betri málsmeðferð en á þá er æ sjaldnar hlustað, að mér finnst, því miður. Og hrokinn í valdhöfunum og meiri hluta hvers tíma fer vaxandi ár frá ári gagnvart Alþingi eins og m.a. hefur verið minnt nýlega á úr þessum ræðustól af manni, sem þó á hér ekki sæti heldur gegnir öðrum störfum í lýðveldinu, þ.e. forsetanum, þegar hann setti þessa virðulegu stofnun. Það er ástæða til að staldra við í þessum efnum. Mýmörg dæmi um mistök, um handabakavinnubrögð, um ónákvæmni af þessu tagi eru fyrirliggjandi frá undangengnum árum og eiga að vera víti til varnaðar.

Ég skil það þótt hæstv. ráðherra vilji ekki hér gangast inn á það að endurgreiða oftekin gjöld eða ranglega álögð gjöld af þessu tagi. Sjálfsagt verður svo að vera að menn verði þá að leita réttar síns fyrir dómstólum til að ná þeim af ríkinu. Og oftast er það þannig, því miður, að ríkið lætur aldrei neitt laust fyrr en togað er út úr því með töngum og eftir að það hefur tapað málum fyrir dómi. Mér finnst að stundum liggi mál þannig að skoða eigi einfaldlega strax af ríkisins hálfu hvort að ekki sé best að viðurkenna mistökin en að fá á sig dóma.