Jarðhitaréttindi

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 15:17:47 (587)

1996-10-29 15:17:47# 121. lþ. 12.9 fundur 14. mál: #A jarðhitaréttindi# frv., 15. mál: #A orka fallvatna# frv., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:17]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er út af fyrir sig áfangi og ánægjuefni að stjórnskipuð nefnd hæstv. iðnrh. hefur skilað tillögum sínum og væntanlega áfangi í málinu. Ég fylgdist með blaðaskrifum á liðnu sumri um þessi efni og hvaða hugsun væri uppi í sambandi við þessi mál, en ég hlýt að spyrja hæstv. iðnrh.: Hverjar eru horfurnar innan hæstv. ríkisstjórnar að því er varðar afgreiðslu á þessum málum til Alþingis? Hvenær gerir ráðherra ráð fyrir því að málin komi hér fram í þinginu? Er einhver sá ágreiningur uppi milli stjórnarflokkanna í þessum efnum að ástæða sé til að ætla að þær hugmyndir sem þar eru uppi nái ekki að koma fram í þinginu?

Í öðru lagi spyr ég hæstv. ráðherra að því hvort hann muni, miðað við það að málin komi fram fljótlega, eiga hlut að því að reyna að ná sem víðtækastri málamiðlun í þinginu í heild með tilliti til þeirra frumvarpa sem ég hef hér reifað, með tilliti til annarra mála sem hugsanlega kunna að koma fram frá öðrum þingflokkum í stjórnarandstöðu, hvort hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir því að málin verði tekin þannig tökum að sem víðtækast samkomulag megi takast.