Jarðhitaréttindi

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 15:19:25 (588)

1996-10-29 15:19:25# 121. lþ. 12.9 fundur 14. mál: #A jarðhitaréttindi# frv., 15. mál: #A orka fallvatna# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:19]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Sú nefnd sem vann að gerð frv. um eignarrétt á auðlindum í jörðu var skipuð fulltrúum stjórnarflokkanna, Framsfl. og Sjálfstfl. Formaður nefndarinnar var hv. alþm. Stefán Guðmundsson. Í nefndinni voru einnig hv. alþm. Sturla Böðvarsson, Tryggvi Gunnarsson lögfræðingur og Páll Gunnar Pálsson lögfræðingur.

Milli þessara aðila varð einróma niðurstaða um þær tillögur sem lagðar voru fyrir og sú umræða sem fram hefur farið í ríkisstjórninni bendir líka til þess að um þetta mál verði mjög góð sátt milli stjórnarflokkanna.

Það er ekki eðlilegt að kynna í þingsal efnisinnihald þessa frv. á meðan þingflokkar stjórnarflokkanna hafa málið til meðferðar --- og ég veit að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson veit að það er eðlilegur verkgangur hér í frumvörpum, hvernig þau koma inn í þingið. Þar sem um stjfrv. verður að ræða hljóta þingflokkar stjórnarflokkanna að verða að fjalla um málið áður en það er lagt fyrir Alþingi þannig að málið sé stjfrv.

Ég vil ekki gefa mér það og er þess vegna ekki tilbúinn til að vera með neinar yfirlýsingar um samstarf í þeim efnum. Ég er bara ekki tilbúinn til þess að gefa mér það og vil ekki ganga út frá því í þessu máli að um þetta verði einhver mikill ágreiningur. Við verðum að sjá til þegar frv. kemur inn í þing, hvort um málið verður ekki tiltölulega góð sátt. Ég tel þetta vera mjög mikilvægt mál. Fari það hins vegar svo að um málið séu skiptar skoðanir, þá er sá ráðherra sem hér stendur tilbúinn til þess að reyna að leita leiða til sátta því að auðvitað er í hvaða máli sem er mjög mikilvægt að náðst geti sem víðtækust samstaða um mál í gegnum þingið.