Eigendaskýrsla um Landsvirkjun

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 15:31:01 (590)

1996-10-29 15:31:01# 121. lþ. 12.95 fundur 60#B eigendaskýrsla um Landsvirkjun# (umræður utan dagskrár), Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:31]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Hér í gær var umræða um þingsköp Alþingis og í þingskjalinu sem var til umræðu kom fyrir orðið ,,framkvæmdarvaldsþing``, að þingið væri orðið allt of mikið framkvæmdarvaldsþing. Þetta orð fór dálítið í taugarnar á hæstv. forseta og hæstv. varaforseta. Menn töldu þetta ósanngjarnt og að mörgu leyti má segja að það sé það vegna þess að núv. hæstv. forseti hefur beitt sér fyrir því að þingið yrði stöðugt myndugra í meðferð mála.

Það er hins vegar að gerast meira og meira finnst mér, hæstv. forseti, núna í seinni tíð lítandi yfir þann tíma sem ég hef verið hér, að tækniræðið er að yfirtaka þingræðið og þingmenn eru að breytast í tæknimenn. Þingmenn verða þingtæknar og þingræðið snýst um tækniræði frekar en annað. Þetta er alvarlegt umhugsunarefni, hæstv. forseti, og tilefni þessara orða minna er það að núna er verið að skila skýrslu sem hæstv. iðnrh. ætlar að kynna á blaðamannafundi. Hann ætlar að segja frá skýrslu sem unnin hefur verið á laun af mjög þröngri nefnd á vegum eignaraðila Landsvirkjunar, en í henni eru tveir framsóknarmenn, einn sjálfstæðismaður og tveir embættismenn. Þessi nefnd gerir hvorki meira né minna en tillögur um það að Landsvirkjun borgi eigendum sínum arð á næstu árum burt séð frá öllu öðru upp á 500--700 millj. kr. á ári og þætti nú mörgum fyrirtækjum og mörgum aðilum í landinu gott að geta ákveðið arðhlutfallið til 15 ára, en það mun vera efni niðurstöðunnar samkvæmt frétt í Morgunblaðinu á dögunum. Jafnframt er tekin ákvörðun um það, samkvæmt frétt í Morgunblaðinu á laugardaginn, hvert eigi að vera verð orkunnar frá Landsvirkjun á næstu 10--20 árum. Þætti það líka gott í ýmsum fyrirtækjum að geta spáð með óyggjandi hætti fyrir um verðlag á þjónustu sinni og arðgreiðslur svo langt fram í tímann.

Þetta er ekki síst athyglisvert vegna þess, hæstv. forseti, að Landsvirkjun er skuldugt fyrirtæki, skuldar 50 milljarða kr., og eitt brýnasta verkefnið í orkumálum á Íslandi er að mínu mati það að taka þær skuldir niður. En jafnframt er það brýnt verkefni í orkumálum á Íslandi, hæstv. forseti, að skapa samstöðu um Landsvirkjun en að því hefur ekki verið unnið af núverandi hæstv. ráðherra, þvert á móti. Þær ákvarðanir eins og að þeim var staðið og teknar voru um Nesjavallavirkjun stuðla ekki að samstöðu um Landsvirkjun og sú niðurstaða, ef niðurstöðu skyldi kalla, sem fékkst í 20 manna nefnd hæstv. iðnrh. um orkumál, sem er reyndar engin niðurstaða af því að flestallir sögðu sig frá henni, slík niðurstaða eða það skjal stuðlar heldur ekki að samstöðu. Því að hvers virði er það nefndarálit um orkumál sem fulltrúar Landsvirkjunar segja sig frá, að ekki sé minnst á það að fulltrúar Alþb., Alþfl. og Kvennalistans í þeirri nefnd skiluðu verulegum fyrirvörum við nefndarálitið?

Þetta er því staðan, hæstv. forseti, að núv. hæstv. iðnrh. er að skapa óvissu og ókyrrð í orkumálum í landinu. Það má segja að hvar sem hann kemur að þessum málum, þá skapist vandi og er þá mikið sagt og það eru vond örlög fyrir einn ungan ráðherra að standa frammi fyrir þeim niðurstöðum.

Niðurstaðan er sú, hæstv. forseti, að eignaraðilum er stillt við vegg, Reykjavíkurborg er stillt upp við vegg, Alþingi á að stilla upp við vegg. Það ætla þessir tækniráðsmenn að gera og þá kemur spurningin: Hvað lætur Alþingi bjóða sér? Það kemur í ljós fljótlega.

Við höfum á síðustu missirum oft rætt þessi mál, orkumál, hér í þessari virðulegu stofnun. Það tókst m.a. vegna umræðna hér að stöðva aðförina að Orkustofnun. Ég segi, hæstv. forseti, og ég spyr ráðherrann ekki neins í þessu máli, að ég vona að það takist að koma í veg fyrir að sú óheillavegferð sem lagt er af stað í með vinnubrögðum ráðherrans í þessu máli verði stöðvuð vegna þess að ofan á allt annað er þannig að málunum staðið að það hefur aldrei verið borið undir stjórn Landsvirkjunar hversu mikið á að borga út í arð eða hvert verðlagið á að vera á þjónustu fyrirtækisins til næstu 10--20 ára. Með öðrum orðum er stjórn fyrirtækisins algerlega sett til hliðar og vonandi tekst hv. Alþingi að koma vitinu fyrir ráðherrann í þessu máli.