Eigendaskýrsla um Landsvirkjun

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 15:36:34 (591)

1996-10-29 15:36:34# 121. lþ. 12.95 fundur 60#B eigendaskýrsla um Landsvirkjun# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:36]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Aðeins að málflutningi hv. þm. og þeim ófriði sem iðnrh. hefur skapað um orkumálin. Það er rétt hjá hv. þm. að það eru tvær nefndir sem iðnrh. hefur skipað til að fara yfir orkumál, annars vegar um skipulag orkumálanna. Fjölmennur hópur allra stjórnmálaflokka, allra hagsmunaaðila í landinu, 20 manna nefnd, er sammála um meginniðurstöðuna. Ófriðurinn er þessi, hv. þm.

Að ósk borgarstjórans í Reykjavík, Reykjavíkurlistans, sem við hv. þm. styðjum svo eindregið, og bæjarstjórans á Akureyri er óskað eftir því við iðnrh. að eignaraðilar, Reykjavíkurborg, Akureyrarbær og ríkið, þetta er að ósk borgarstjórans í Reykjavík og meiri hlutans þar, að Landsvirkjunareignarhaldið verði sérstaklega skoðað, stjórnfyrirkomulag fyrirtækisins, hlutverk þess og rekstrarform. Og af hverju? Vegna þess að borgarstjórinn í Reykjavík hafði í mörgum sjónvarpsviðtölum oft og iðulega sagt: Það er eðlilegt að Reykvíkingar, hv. þm. Svavar Gestsson, (Gripið fram í: Þingmaður Reykjavíkur.) þingmaður Reykjavíkur, það er eðlilegt að Reykvíkingar fái arð af þessari miklu eign sem þeir eiga í Landsvirkjun, en ríkið á auðvitað líka --- og þá eiga önnur landsvæði að njóta í þeim efnum --- ríkið á að fá þennan arð líka.

Arðurinn á ekki, hv. þm., að renna til stjórnar Landsvirkjunar. Það er mikill misskilningur. Hann á að renna til eignaraðilanna. Og á grundvelli þessa skipaði iðnrh. nefnd sem í eiga sæti tilnefndir fulltrúar --- frá hverjum? Tveir frá borgarstjórn Reykjavíkur, frá minni hlutanum og meiri hlutanum, tveir frá Akureyrarbæ, frá minni hlutanum og frá meiri hlutanum, og tveir fulltrúar ríkisins sem voru ekki pólitíkusar eins og hv. þm. orðaði það. (SvG: Fulltrúar pólitískra ráðherra.) Það er ráðuneytisstjórinn í iðnrn. sem er formaður nefndarinnar og það er fulltrúi fjmrh., starfsmaður fjmrn. Nefndin kemst að niðurstöðu og er sammála um niðurstöðuna, hv. þm. (Gripið fram í.) Þeir fengu virt erlent ráðgjafarfyrirtæki til að meta eignarhluta allra aðila í fyrirtækinu. Þeir liggja fyrir, nefndin er sammála. Fulltrúar eignaraðilanna, borgarstjórinn í Reykjavík, iðnrh. og bæjarstjórinn á Akureyri hafa skrifað undir tillögur nefndarinnar og eru tilbúnir til að leggja þessar tillögur fyrir þá aðila sem um málið eiga að fjalla. (Gripið fram í.) Í borgarráði, hv. þm., í borgarráði í dag voru þessar tillögur nú fyrir nokkrum mínútum síðan samþykktar einróma. Á fundi bæjarráðs Akureyrar voru þessar tillögur samþykktar einróma.

Gegn hverju er þessi hv. þm., Svavar Gestsson, að berjast? Það er samkomulag milli allra pólitískra flokka að gera þær breytingar sem tillögur liggja fyrir um. Í ríkisstjórn í morgun voru þessar tillögur samþykktar. Ég skil ekki á móti hverju hv. þm. Svavar Gestsson er að berjast. Er hann að berjast gegn hagsmunum Reykvíkinga? Er hann að berjast gegn því að það sé hægt að nýta arðinn sem út úr þessu fyrirtæki kemur til atvinnusköpunar víða úti á landsbyggðinni?

Hv. þm. verður að gera sér grein fyrir því að þetta fyrirtæki, Landsvirkjun, gegnir mjög mikilvægu hlutverki í atvinnuuppbyggingu í landinu og þannig viljum við nýta þann arð, fyrirtækið eigi að vinna á þessu sviði. Auðvitað, hv. þm., mun þetta mál koma til umfjöllunar á Alþingi vegna þess að í kjölfar þessa allsherjarsamkomulags allra pólitískra flokka mun verða að leggja fyrir Alþingi frv. sem tryggir að sameignarsamningurinn sem undirritaður hefur verið gangi eftir og þá fær hv. þm. auðvitað að fjalla um málið og taka til þess mjög langan tíma. Þannig að málið kemur hér aftur til umfjöllunar á Alþingi.