Eigendaskýrsla um Landsvirkjun

Þriðjudaginn 29. október 1996, kl. 15:48:56 (596)

1996-10-29 15:48:56# 121. lþ. 12.95 fundur 60#B eigendaskýrsla um Landsvirkjun# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur

[15:48]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég fagna þeim ófriði sem hæstv. iðnrh. hefur komið á í orkumálunum, eins og hv. þm. Svavar Gestsson orðaði það. Og ég vonast til þess að úr þeim ófriði muni spretta breytingar sem verða okkur öllum sem þjóð til góðs. Ég þekki ekki efni þess samkomulags sem hæstv. iðnrh. vitnaði til en ég vona hins vegar innilega að þeir sem hafa unnið að því hafi haft að leiðarljósi að í þessum geira þurfi að ríkja frelsi og samkeppni og menn þurfi að gæta þess í fjárfestingum að þær séu arðsamar. Þar af leiðandi eru þær hugrenningar, sem hér var vitnað til úr þeirri skýrslu sem dreift hefur verið til þingmanna, að mínu viti réttar, að menn hugsi til lengri tíma um það hvort arður sé af þeim fjárfestingum sem eignaraðilar Landsvirkjunar hafa lagt í.

Það hefur verið talað um eign Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun og ég velti því fyrir mér hvernig þessi eign hefur orðið til. Jú, að hluta til hefur hún orðið til í skjóli einokunaraðstöðu. Ég velti því þá fyrir mér hvort það sé rétt að Reykvíkingar einir njóti þess eignarhluta þegar til arðseminnar kemur. Þessi einokunarstaða sem Landsvirkjun hefur haft hefur m.a. komið fram í því að Landsvirkjun hefur nánast haft stöðvunarvald hvað varðar virkjanir annarra orkufyrirtækja í landinu. Og þessu hefur verið beitt a.m.k. gagnvart Hitaveitu Suðurnesja um langt árabil þar sem hafa verið miklir virkjunarmöguleikar sem hafa verið ónýttir. Ég vonast til að þær breytingar sem af þessu munu hljótast leyfi að þeir möguleikar verði nýttir.

Hv. þm. Svavar Gestsson hóf sitt mál á því að ræða um framkvæmdarvaldsþing. (Forseti hringir.) En er ekki hv. þm. að verða hálfgerður framkvæmdarvaldsþingmaður eða þingtæknir (Forseti hringir.) þar sem hann situr í stjórn Landsvirkjunar?