Jöfnun atkvæðisréttar

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 13:50:33 (612)

1996-10-30 13:50:33# 121. lþ. 14.1 fundur 58. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., SF
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[13:50]

Siv Friðleifsdóttir:

Hæstv. forseti. Þetta er afar góð fyrirspurn og ég get ekki séð að neinir sleggjudómar séu í henni og vil ég taka hjartanlega undir það sem kom fram áðan. Þetta er nákvæmlega sama fyrirspurn og ég flutti á síðasta þingi. Þá voru svörin þau -- jú, við skulum skoða að setja upp gömlu nefndina sem hafði skoðað þetta mál síðast. Síðan hefur ekkert gerst. Kosningalöggjöfinni var breytt 1987, niðurstaðan var ófullnægjandi. Henni var breytt á síðasta kjörtímabili og niðurstaðan var ófullnægjandi. Við nokkrir þingmenn í Framsfl. höfum bent á leiðir, m.a. að gera landið að einu kjördæmi. Einnig höfum við bent á að skoða svokallaða helmingaleið, þ.e. að taka helminginn úr kjördæmunum og helminginn af landslista. Ég bendi líka á það að við erum nýbúin að fara í gegnum forsetakosningar og þar var kosið í ,,landið eitt kjördæmi``. Er einhver sem vill koma hér upp og segja að það sé rangt t.d. að kjósa forsetann í ,,landið eitt kjördæmi``? Áttu þar íbúar landsins að hafa misjafnt vægi atkvæða? Það er enginn tilbúinn í slíkt.