Jöfnun atkvæðisréttar

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 13:53:15 (614)

1996-10-30 13:53:15# 121. lþ. 14.1 fundur 58. mál: #A jöfnun atkvæðisréttar# fsp. (til munnl.) frá forsrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[13:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. yfirlýsingu hans hér áðan sem var mikilvæg og hæstv. forsrh. mælti eins og landsföður sæmdi í þessu mikilvæga en um leið vandasama og flókna máli. Sama verður ekki sagt um málflutning hv. málshefjanda. Hv. þm. kom eins og heilagur maður og hafði allt á hornum sér og hreytti ónotum í allt og alla og væntanlega ekki síst sinn eigin flokk og arfleifð eigin flokks í þessu máli. En ætli það sé ekki svo að Framsfl. hafi staðið einna dyggastan vörð gegnum tíðina um það kosningakerfi sem hefur lengst af verið við lýði hér og þráast mest við gegn breytingum af öllu tagi? Hv. þm. hefur þá a.m.k. farið flokkavillt að þessu leyti ef hann er svona óskaplega ósáttur við fyrirkomulagið hingað til. Ég tel að hæstv. forsrh. sé að setja þetta mál í réttan farveg og þann eina sem kemur til greina. Nóg er nú samt sem skapar spennu og erfiðleika milli landshlutanna þó að það bætist ekki við að menn klúðri málinu og segi sundur friðinn í kjördæmamálinu.