Afleiðingar afnáms línutvöföldunar

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 14:13:09 (627)

1996-10-30 14:13:09# 121. lþ. 14.3 fundur 59. mál: #A afleiðingar afnáms línutvöföldunar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:13]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Það var á síðustu dögum 120. löggjafarþings að samþykkt var að afnema svofellda línutvöföldun og flytja hana sem varanlega aflaheimild á fiskveiðiflotann. Þessi breyting var gerð í miklum flýti í tengslum við aðrar óskyldar breytingar í lögum um stjórn fiskveiða og fékk því ekki þá umræðu sem nauðsynleg er. Í þeirri takmörkuðu umræðu sem þá fór fram var varað við afleiðingum þessarar breytingar og neikvæðum áhrifum hennar eins og einnig má sjá í athugasemdum Samtaka fiskvinnslu án útgerða og Landssambands smábátaeigenda um þetta mál.

Staðreyndin virðist sú að engin skoðun fór fram á því hvaða áhrif slík breyting gæti haft á hinar ýmsu greinar sjávarútvegs, byggðir landsins né einstaka liði í útflutningi sjávarfangs. Miðað við þau viðbrögð sem komið hafa frá hinum ýmsu stöðum um landið, þá eru allar líkur fyrir því að svartsýnustu spár rætist og línuveiðar landróðrabáta leggist að mestu af og byggðarlög stórskaðist. Máli mínu til stuðnings vil ég vitna hér í fáeina aðila. Í Vestra, blaði Vestfirðinga, segir 22. ágúst sl., með leyfi forseta:

,,Línuútgerðin hefur verið snar þáttur í útgerðarmynstri Vestfirðinga gegnum tíðina. Í vetur óttast menn að línuveiðar leggist að verulegu leyti af, þökk sé afnámi línutvöföldunar. Fyrir útgerðarbæi sem ekki hafa yfir togaraútgerð að ráða getur þetta þýtt nær algeran dauða.``

Í Morgunblaðinu 3. júlí er fyrirsögn sem hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Afnám línutvöföldunar gæti þýtt 20% aflasamdrátt í Vesturbyggð.`` Í Morgunblaðinu 2. október sl. er upplýst að óvenjumikið sé af línubátum til sölu að sögn Björgvins Ólafssonar hjá BP-skipum og segir hann, með leyfi forseta:

,,Það er óvenjumikið af línuveiðiskipum til sölu núna. Mér telst til að þau séu um 15. Í mörg ár hefur framboð ekki verið svona mikið og það hefur ekki verið svona mikið til sölu af skipum með aflaheimildum eins og búið er að vera núna. Ég tengi þetta línutvöfölduninni sem menn eru búnir að fá upp í hendurnar.``

Í DV 7. sept. er eftirfarandi frétt, með leyfi forseta:

,,Um árabil hefur Magnús Björnsson og fjölskylda verið einn helsti máttarstólpi í atvinnurekstri á Bíldudal og driffjöðrin í rekstri saltfiskvinnslunnar Í nausti. Hann er nú á förum úr plássinu og er að kaupa fiskvinnslufyrirtækið Kögurás í Hafnarfirði, þó ráðgert sé að fyrirtækið á Bíldudal verði áfram í rekstri. Að sögn Viðars Friðrikssonar er meginástæðan dökkt útlit hvað hráefnisöflun varðar eftir að línutvöföldunin var afnumin. Hann segist ekki vita um neinn sem ætlar á línu í vetur utan þá báta sem eru með beitningarvélar um borð. Svona má segja víðar að af landinu eins og á Suðurnesjum.``

[14:15]

Herra forseti. Þetta eru ekki góðar fréttir og varla í þeim anda sem hæstv. sjútvrh. né þeir hv. þingmenn bjuggust við sem samþykktu þessa breytingu. Herra forseti. Í ljósi þessa hef ég lagt fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. sjútvrh.:

1. Hvaða áhrif, jákvæð og neikvæð, telur ráðherra afnám línutvöföldunarinnar hafa?

2. Telur ráðherra ástæðu til að setja vinnuhóp á laggirnar til að meta breytingar sem verða m.a. á þróun byggðar, atvinnu, sjósóknar og ferskfisksútflutnings vegna afnáms línutvöföldunarinnar?

3. Mun ráðherra endurskoða afnám línutvöföldunarinnar eftir reynslu yfirstandandi fiskveiðiárs ef breytingin er talin hafa skaðað þjóðina að mati óvilhallra aðila?