Afleiðingar afnáms línutvöföldunar

Miðvikudaginn 30. október 1996, kl. 14:24:47 (631)

1996-10-30 14:24:47# 121. lþ. 14.3 fundur 59. mál: #A afleiðingar afnáms línutvöföldunar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur

[14:24]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Það er enginn vafi á því að afnám línutvöföldunar mun leiða til þess að línuveiðar stórminnka og leggjast jafnvel af og til þess benda auðvitað auglýsingar í blöðunum undanfarið þar sem hver línubáturinn á fætur öðrum er auglýstur til sölu. Ég tel mikinn skaða af því ef þessar veiðar leggjast af því að línufiskurinn er besta hráefnið sem berst á land auk þess sem veiðarnar eru mjög atvinnuskapandi.

Línutvöföldunarkerfið var að bresta eins og hér var bent á vegna stöðugrar fjölgunar stórra beitningavélabáta og á síðasta fiskveiðiári var línutvöföldunarkvótinn uppveiddur hálfum mánuði áður en tvöföldunartímabilinu lauk. Ég benti á það hér á þingi fyrir líklega 2--3 árum að það þyrfti að stöðva fjölgun línuskipanna, loka þessum potti eins og gert er um margar aðrar veiðar eins og humar, rækju, loðnu og fleira þannig að ekki fjölgaði endalaust og þetta kerfi brysti. Það var því miður ekki gert og ég tel að það hafi verið mistök. En fyrst það var ekki gert, þá held ég að það hafi verið augljóst að þessar veiðar mundu líða undir lok. Ég held að það verði ekki aftur snúið. Það er búið að úthluta til manna og báta þeim kvóta sem var til skiptanna. Menn fengu margir lottóvinning við það og eru sumir byrjaðir að braska með þessa lottóvinninga sína og búnir að selja þá þannig að þeir verða ekki aftur teknir. Ég var alltaf talsmaður línutvöföldunar og tel mikla eftirsjá að henni.